Var við „meiningarmun“ á álitinu

Friðrik Árni Friðriksson Hirst, framkvæmdastjóri Lagastofnunar HÍ og aðjúnkt við …
Friðrik Árni Friðriksson Hirst, framkvæmdastjóri Lagastofnunar HÍ og aðjúnkt við Lagadeild HÍ.

„Þetta mál er auðvitað miklu flóknara og stærra lögfræðilega en rúmast innan stutts lögfræðiálits um afmarkað álitaefni sem beðið er um með stuttum fyrirvara,“ segir Friðrik Árni Friðriksson Hirst, framkvæmdastjóri Lagastofnunar HÍ og aðjúnkt við Lagadeild HÍ, í samtali við mbl.is.

Lagastofnunin skilaði í gær álitsgerð til forsætisráðuneytisins um samspil ákvæði útlendingalaga og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

„Álitið snýst í raun einungis um hvort ákvæði útlendingalaganna, þ.e.a.s. að einstaklingur hafi misst réttindi á grundvelli þeirra laga, þýði eitt og sér að viðkomandi sé útilokaður frá því að eiga rétt á grundvelli laga um félagsþjónustu. Það er spurningin sem er borin upp af forsætisráðuneytinu,“ segir Friðrik.

Meiningarmunur á því hvað álitið feli í sér

Friðrik kveðst hafa orðið var við að meiningarmunur hafi verið í umræðunni um hvað álitið feli í raun og veru í sér. En að svarið við spurningu forsætisráðherra sé það að regla útlendingalaganna víki ekki til hliðar ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaganna af þeirri einu ástæðu að réttindi einstaklings sem umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi fallið niður.

„Spurningin sem er borinn upp er mjög afmörkuð og henni í raun auðsvarað. Við skoðun Lagastofnunar kemur í ljós mjög fljótt að niðurstaðan sem er fengin í álitinu er fyllilega í samræmi við afstöðu Alþingis sem birtist meðal annars í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Þar er sérstaklega áréttað að regla útlendingalaganna víki ekki til hliðar ákvæði laga um félagsþjónustu. Í ofanálag var það líka skilningur dómsmálaráðuneytisins í minnisblaði þess til allsherjar- og menntamálanefndar á þessum tíma.“

Taka ekki afstöðu til meginágreiningsefnisins

Meginágreiningsefnið er að hans mati túlkun á því hvað felist í 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og hvort þeir einstaklingar sem hafi verið synjað um alþjóðlega vernd, og beri að yfirgefa landið, eigi rétt til aðstoðar á grundvelli þeirrar greinar. Sú spurning hafi hins vegar ekki verið lögð fyrir Lagastofnun.

„Í þessu áliti er því ekki tekin nein afstaða til þess,“ segir Friðrik.

Í álits­gerðinni er fjallað um sérreglu í 15. gr. laga nr. 40/​1991 um fjár­hagsaðstoð við er­lenda ríkisborgara sem eiga ekki lög­heim­ili á land­inu og vakti Friðrik sér­stak­lega at­hygli á grein­ar­gerð sem fylgdi frum­varpi sem varð að lög­um nr. 34/​1997 þegar 15. gr. laga var breytt í nú­gild­andi horf. Þar kem­ur fram að ákvæði um fjár­hagsaðstoð eigi aðeins við í und­an­tekn­ing­ar­til­vik­um.

„[…] Ákvæðið snýst um und­an­tekn­ing­ar­til­vik, um aðstoð við er­lenda rík­is­borg­ara sem ekki eiga lög­heim­ili í land­inu eins og áður kom fram. Rétt þykir að til­taka sér­stak­lega að aðstoð þeim til handa sé ein­ung­is veitt í sér­stök­um til­fell­um, ákvæðið feli með öðrum orðum í sér þrönga sérreglu. Hér er fyrst og fremst um að ræða aðstoð til heim­ferðar. Einnig get­ur í und­an­tekn­ing­ar­til­vik­um verið um að ræða fjár­hagsaðstoð vegna brýnna þarfa í skamm­an tíma. [...].“

Mismunandi umfang aðstoðar

Varðandi það hverjir falli undir þessa skilgreiningu segir Friðrik:

„Það er sveitarfélaga og ríkisins í sameiningu að leysa úr því hverju sinni hverjir eigi rétt til aðstoðar á grundvelli laga um félagþjónustu og hvert inntak þess réttar er. Það getur verið mismunandi umfang aðstoðarinnar eftir aðstæðum hvers og eins.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert