Átökin sem brutust út á Dalvegi í gær eru til rannsóknar hjá lögreglu og í dag verða teknar skýrslur af þeim sem handteknir voru. Þetta staðfestir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is
Lögregla var kölluð að verslun í Kópavogi um kvöldmatarleytið í gær eftir að tilkynning barst um átök þar sem vopn komu við sögu. Sjúkrabifreið var send á vettvang og handtók lögregla tvo sem hafa verið vistaðir í fangaklefa.
Ráðist var að Birgittu Líf Björnsdóttur áhrifavaldi og kærasta hennar Enok Jónssyni, en Birgitta birti í gær færslu á Instagram þar sem hún kvaðst vera þakklát fyrir skjót viðbrögð lögreglu. Að sögn Birgittu eru þau Enok heil á húfi.