„Við vorum búin að ákveða það, fjórir hlaupavinir að fara út á 3:44:02 og það gekk bara ótrúlega vel, við héldum hópinn alveg upp að þrjátíu kílómetrum,“ segir Andrea Kolbeinsdóttir sem varð hlutskörpust íslenskra kvenna í Reykjavíkurmaraþoninu í dag og lenti auk þess í sjöunda sæti yfir alla þátttakendur sem voru um 11.000 talsins. Með 3:44:02 á hún við mínútur á hvern kílómetra, ekki heildartíma hlaupsins.
Hlaupavinirnir eru þeir Sigurjón Ernir Sturluson, Grétar Örn Guðmundsson og Jörundur Frímann Jónasson og má segja að samfylgd þeirra fjögur hafi heldur betur gengið upp þar sem þau höfnuðu í samliggjandi sætum, fjórða til sjöunda, en Sigurjón varð þar í fjórða sæti og sigurvegari í hópi íslenskra hlaupara.
Komu öll fjögur í mark á tímabilinu 2:38:25 til 2:42:15 og kveður Andrea stemmninguna hafa verið góða í vinahópnum meðan á hlaupi stóð. „Svo var ég bara skotin í fæturna! Þessi veggur sem fólk talar um í maraþoni, hann er til,“ segir Andrea ákveðinni röddu og vísar til hins annálaða þrjátíu kílómetra múrs sem innvígðir þekkja vel til.
„Á 32. kílómetra missi ég þá frá mér og dett úr 3:44 í rúmlega fjórar,“ segir Andrea og vísar á ný í mínútufjölda á hvern hlaupinn kílómetra í þessari þrekraun sem heilt maraþon er. „Þannig að ég er bara ein síðustu tíu kílómetrana að reyna að koma mér áfram,“ heldur Andrea áfram og kveðst hafa verið komin upp í 4:10 mínútur á kílómetra „þegar maður var þarna einn í Fossvoginum og bara að deyja,“ lýsir hún líðan sinni á þessari ögurstundu.
„Ég fann að ég var þreytt í líkamanum eftir það sem ég er búin að vera að gera undanfarið en samt endaði þetta í fimm mínútna bætingu og ég er mjög sátt við þetta og spennt að fara á fullt í maraþonundirbúning fyrir Valencia-maraþonið í desember, ég var ekki búin að æfa sérstaklega maraþon-æfingar fyrir þetta maraþon og ég fann að malbikið var farið að fara svolítið með mann eftir þrjátíu kílómetra,“ segir hlauparinn sem setur stefnuna á Spán undir jólin – og það ekki í neitt sólbað heldur hlaupið í Valencia.
Andrea hefur stundað hlaupin í áratug þrátt fyrir að vera aðeins 24 ára svo hún hófst handa þegar um fermingu og liggur þá næst við að spyrja hvernig þetta hafi komið til.
„Góð spurning, ég var nú í fótbolta og tennis og ýmsum íþróttum, svo lágu hlaupin bara svo vel fyrir manni. Ég byrjaði samt ekkert á fullu þarna á sínum tíma, maður var svona að hlaupa hér og þar og svo kom kannski hálfs árs pása og maður var í öðrum íþróttum, en síðustu fimm-sex ár hef ég bara verið að hlaupa og gefið allt í þetta,“ segir Andrea af ferli sínum.
Hún hleypur allt árið en játar þó að hún eigi til að draga örlítið úr innanhússhlaupum yfir vetrarmánuðina og skella sér á skíði í staðinn. Slíkt sé þó ekki í boði í ár vegna yfirvofandi maraþons í Valencia.
„Já og nei,“ svarar Andrea þegar hún er spurð út í ánægjustig dagsins, hvort hún uni vel við frammistöðu sína. „Maður hefði auðvitað viljað meira og það var ógeðslega leiðinlegt að missa strákana frá sér, en miðað við undirbúninginn fyrir þetta verð ég bara að vera sátt,“ segir hlaupagikkurinn Andrea Kolbeinsdóttir að lokum, fyrst íslenskra kvenna í mark í Reykjavíkurmaraþoninu og í sjöunda sæti í heildina.