Hermann Nökkvi Gunnarsson
Helgi Gunnarsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fundi klukkan átta í fyrramálið til að fara yfir staðreyndir málsins er varðar brunann í iðnaðarhúsnæði við Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði.
Helgi segir of snemmt að segja til um hvort að lögreglan hefji sakamálarannsókn en að fundað verði á morgun til að fara yfir hvað sé vitað og hverju þurfi að komast að.
„Við þurfum fyrst að vita hverjir voru þarna inni og við þurfum að komast á núllpunkt,“ segir hann og bætir við að þó svo að tölur séu á reiki í fjölmiðlum að 17-22 manns hafi búið þarna, að þá sé það með öllu óvitað.
Húsnæðið var atvinnuhúsnæði og því má fólk ekki búa í því. Spurður út í það segir Helgi að slíkt sé því miður of algengt. Flestir hafi vitað að þarna hafi fólk búið ólöglega.
„Fólk hefur búið þarna í mörg ár og eldvarnir í þessu húsi voru ekki til fyrirmyndar.“