Eldvarnir reyndust í ólagi en ekkert var kvartað

Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, fyrir framan …
Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, fyrir framan eldsvoðann í Hafnarfirði í dag. mbl.is/Anton Guðjónsson

Atvinnuhúsnæðið á Hvaleyrarbraut 22 var á lista yfir húsnæði sem grunur lék á að búið væri í. Ekki hafði sérstaklega verið kvartað um að eldvarnir í húsnæðinu væru ábótavant, en í ljós kom að þær voru í ólagi þegar á reyndi.

Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir að slökkviliðsmenn hafi gert sér grein fyrir í upphafi eldsvoðans að brunavarnir væru ekki fullkomnar í húsnæðinu sem var gamalt og það hefði verið byggt við það oftar en einu sinni.

„Það kemur í ljós að eldvarnir voru ekki í lagi. Jafnvel þeir eldvarnarveggir sem voru þokkalegir réðu ekki við það þegar eldsmaturinn og magnið var orðið svona mikið og komið á milli svona margra hólfa,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.

Grunur um að búið væri í húsinu

Í skýrslu um kortlagningu á búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu árin 2021-2022, sem kom út í apríl í fyrra, kemur fram að áætlað sé að 1.868 einstaklingar búi í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta hús er eitt af þeim sem er þar á lista þar sem er grunur um búsetu,“ segir Birgir. Hann segir að ekki hafi sérstaklega hafi verið kvartað um að brunavarnir væru ábótavant í húsnæðinu.

„Við höfðum vitneskju um að þarna væri búseta en það var ekki farið út í aðgerðir hvað það varðar,“ segir Birgir.

Er alveg öruggt að það hafi enginn orðið inni í eldsvoðanum?

„Við teljum að það sé búið að fara það vel yfir það að svo sé ekki,“ segir Birgir og bætir við að ekki sé sérstaklega leitað að fólki inni í brunarústunum.

Rangt að ákveðinn fjöldi hafi verið skráður

Birgir segir ekki rétt sem haldið hefur verið fram í fréttaflutningi að ákveðinn fjöldi fólks hafi verið skráður til heimilis í húsnæðinu, enda sé slíkt ólöglegt.

„Það sem við höfum komist næst er að 17-19 manns hafi búið þarna. Það er engin skráning,“ segir Birgir.

Hann segir að búseta í atvinnuhúsnæði sé ekki heimil þó hún hafi viðgengist og það búi margir við þannig aðstæður.

„Enda höfum við frekar unnið að því að reyna að finna leið til þess að það verði leyfilegt við ákveðnar aðstæður en þetta er alltaf umhugsunarvert þegar svona kemur upp á eins og þessi bruni í dag,“ segir Birgir.

„Þetta er ekki samþykkt sem íbúðarhúsnæði og þá er ekki leyfilegt að leigja það út sem slíkt.“

„Jafnvel þeir eldvarnarveggir sem voru þokkalegir réðu ekki við það …
„Jafnvel þeir eldvarnarveggir sem voru þokkalegir réðu ekki við það þegar eldsmaturinn og magnið var orðið svona mikið og komið á milli svona margra hólfa,“ segir Birgir. mbl.is/Anton Guðjónsson

Ekki gert athugasemd þar sem hlutir eru í lagi

Birgir segir að fleiri hundruð, ef ekki þúsund, manns búi í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

„Það hefur viðgengist í ákveðnum húsum árum saman. Við höfum ekki gert athugasemd þar sem hlutirnir eru í þokkalegu lagi, það er að segja að öryggi fólks sé tryggt,“ segir Birgir.

Slökkviliðsmenn eru enn þá að störfum við Hvaleyrarbraut að sögn Birgis og það verður vakt við húsið þar til að það verður tryggt.

Þor­steinn Gunn­ars­son, varðstjóri í aðgerðar­stjórn slökkviliðsins á höfuðborg­ar­svæðinu, seg­ir að um 85-90 slökkviliðsmenn hafi unnið að slökkvistarfi í Hafnarfirði í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert