Fráveitumál eru víða í ólestri

Flest sveitarfélög á Íslandi þurfa að ráðast í umtalsverða fjárfestingu …
Flest sveitarfélög á Íslandi þurfa að ráðast í umtalsverða fjárfestingu á næstu árum til að uppfylla kröfur um frárennslismál. mbl.is/Golli

„Það er víða pottur brotinn í fráveitumálum sveitarfélaga,“ segir Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, sviðsstjóri umhverfisgæða hjá Umhverfisstofnun. Hreinsun fráveitu sé á langflestum stöðum ábótavant.

Aðalbjörg segir Umhverfisstofnun hafa hvatt sveitarfélögin til að setja fram áætlanir um forgangsröðun framkvæmda sem séu dýrar og það muni taka nokkur ár að koma fráveitumálum á Íslandi í ásættanlegt horf. Til þess geta sveitarfélög sótt um styrki til íslenska ríkisins en einnig til Evrópusambandsins. „Þetta eru stórar og dýrar aðgerðir sem þarf að fara í.“

Mikilvægt umhverfismál

Heilbrigðisnefnd Suðurlands hefur hvatt sveitarfélögin á starfssvæði embættisins til að setja umbætur í frjárennslismálum í forgang. Jafnframt að ríkisvaldið muni koma að framkvæmd úrbóta með fjámagni, þar sem um sé að ræða eitt af stærstu umhverfismálum samtímans. Þessi brýning sé sett fram í ljósi þeirra fjölda fráveitumála sem séu nú á borði Heilbrigðisnefndar Suðurlands og verða úrbætur í fráveitumálum meginefni ársþings Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi sem fram fer í október á Vík í Mýrdal.

Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins, segir að staða frárennslismála sé eitthvað sem öll sveitarfélög þurfi að hafa í huga og þurfi að leggja aukið fjármagn í. „Þetta er mörgum ofviða,“ segir hún og ljóst sé að meira fjármagn þurfi að setja í málaflokkinn til að uppfylla þær kröfur sem eru gerðar. Átaks sé þörf. „Þetta er mjög mikilvægt verkefni sem við þurfum að takast á við.“

Sigrún segir að þetta sé í samstarfi við vatnaáætlun sem hafi verið innleidd á síðasta ári og heilbrigðiseftirlitið vinni náið með Umhverfisstofnun Íslands að umbótum. Stofnunin birti á síðasta ári úttekt á stöðu fráveitumála í 28 sveitarfélögum. Í henni kemur fram að töluverðra umbóta sé þörf en fráveita er metin sem helsti álagsþáttur á vatnsgæði á Íslandi.

Fjallað var um málið í Morgunblaðinu á föstudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert