Þorsteinn Gunnarsson, varðstjóri í aðgerðarstjórn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu segir að slökkvilið sé búið að ná tökum á eldinum í iðnaðarhúsnæði við Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði.
„Það er framhaldsvinna núna í gangi. Þeir eru búnir að ná tökum á þessu nokkuð vel. Það verður vinna þarna fram á nótt. Það er svo mikill hiti í öllu saman og kannski einhver eldhreiður hér og þar og það þarf að rífa húsið,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is.
Þorsteinn segir víst að húsið sé mikið skemmt en fyrr í kvöld sagði Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri SHS, að húsnæðið væri líklega gjörónýtt.