Húsið er gjörónýtt

Ævar Hjartarson, formaður húsfélags við Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði, segist hafa orðið fyrir miklu tjóni í eldsvoðanum. Hann var með verkfæri og bíla í einu bilinu í húsnæðinu. 

Hann segir í samtali við blaðamann mbl.is á svæðinu að annar eigandi að bili í húsnæðinu hafi breytt húsnæðinu með þeim hætti að eldvarnarveggur virkaði ekki sem skyldi. Þannig hafi eldurinn átt greiðari leið um húsið og inn í bilið sem hann á í húsinu. Breytingarnar voru ólöglegar að sögn Ævars.

Fundað eftir helgi í félaginu

Hvaleyrarbraut 22 er iðnaðarhúsnæði og á fjöldi manns bil í húsnæðinu, þar á meðal Ævar. Þar var líka óskráð íbúðarhúsnæði, en mbl.is ræddi í dag við mann sem bjó í húsinu og missti allt sitt.

„Þetta er mjög mikið tjón og húsið er gjörónýtt eftir daginn,“ segir Ævar. Hann segist ekki hafa fengið upplýsingar um ástandið á húsnæðinu né hver eldsupptökin hafi verið.

Hann segir að fundað verði í húsfélaginu eftir helgi og þá verði ákveðið hver næstu skref verði.

Húsið við Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði er gjörónýtt eftir daginn.
Húsið við Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði er gjörónýtt eftir daginn. Ljósmynd/Eva Björk

Sem betur fer ekki mannskaði

Ævar segist ekki vita hversu margir hafi búið húsnæðinu. Það hafi ítrekað verið bent á hættuna sem geti skapast þegar fólk býr í iðnaðarhúsnæði. „Sem betur fer var ekki mannskaði, þetta eru allt dauðir hlutir sem hægt er að kaupa nýja hluti,“ segir Ævar. 

Hann segir að þegar ljóst var að eldur væri í húsinu hafi menn gengið á milli og hrópað, kallað og sparkað upp hurðum til að bjarga öllum út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka