Ölmusukynlíf drepur alla kynlöngun

Kynfræðingurinn Áslaug Kristjánsdóttir gaf nýlega út bókina Lífið er kynlíf. …
Kynfræðingurinn Áslaug Kristjánsdóttir gaf nýlega út bókina Lífið er kynlíf. Bókin mun eflaust hjálpa mörgum pörum. mbl.is/Ásdís

Kynlíf í langtímasamböndum er viðfangsefni bókarinnar Lífið er kynlíf eftir Áslaugu Kristjánsdóttur, hjúkrunar- og kynfræðing, en hún lærði kynfræði bæði í Bretlandi og Ástralíu. Áslaug telur bókina geta hjálpað pörum af öllum gerðum að lifa betra og innihaldsríkara kynlífi, enda segir hún marga leita ráða til að kveikja eða viðhalda neistanum.

Er ekki sendiherra kynlífs

Í bókinni er tekið á vandamálum sem sambúðarfólk upplifir í samlífi sínu. Spurð um helstu vandamál para segir Áslaug:

„Við heyrum það oft að kynlíf deyi í langtímasamböndum. Ég held að stærsta vandamálið sé viðhorf okkar gagnvart kynlífi í langtímasamböndum. Við vitum ekki nóg til að viðhalda kynlöngun og hvað þarf til að lifa góðu kynlífi. Sú þekking virðist ekki vera á vitorði margra,“ segir Áslaug og nefnir að engin ein regla henti öllum. Sumir eru til að mynda sáttir við lítið kynlíf á meðan aðrir kjósi að stunda það oftar.

„Ég segi stundum að ég sé kynfræðingur en ekki sendiherra kynlífs. Ég er ekki að reyna að fá fólk til að stunda kynlíf ef það vill það ekki. Öll tíðni er eðlileg og ég er ekki mikið í tíðnitali,“ segir hún.

Það besta er eftir

Áslaug segir okkur Íslendinga ekki eiga nógu miklar upplýsingar um kynlíf og því sé erfitt að segja til um hvenær á lífsleiðinni pör eigi „besta“ kynlífið. Hún segir oft talið að besta kynlífið sé í upphafi sambands, á svokölluðum hveitibrauðsdögum, en það sé ekkert endilega sannleikurinn.

„Það voru gerðar fimmtán ára rannsóknir í Kanada, sem ég vitna í í bókinni, þar sem hópur rannsakar hvað sé frábært kynlíf. Ein af niðurstöðunum er að kynlíf verður betra með aldrinum. Við sem erum miðaldra getum vitað að það besta er eftir,“ segir Áslaug og segir fólk oft losna við ákveðna skömm með aldrinum og sættast betur við líkama sinn. 

Hvað á fólk að gera ef það er of þreytt eða nennir hreinlega ekki kynlífi?

„Lausnin er alls ekki að pína sig því það gerir bara illt verra. Best er að setjast niður og fara yfir væntingarnar. Þá þarf að finna út hvað væri kynlíf sem parið myndi nenna að stunda og yrði til þess að það myndi vilja meira af því. Rútínukynlíf seint á kvöldin, svo hægt sé að tikka í boxið, er ekki hjálplegt, en flest okkar gera þetta,“ segir Áslaug og segir ölmusukynlíf alls ekki góða hugmynd.

„Sú aðferð virðist alltaf valda því að kynlöngun beggja aðila hverfur.“

Að gefa kynlífi gaum

Hvað á fólk að gera til að kveikja neistann?

„Það er engin töfralausn en það eru margar góðar leiðir. Fyrir mjög marga virkar að fara að snertast aftur og kyssast. Ef það verður nógu kynferðislegt endar það stundum með kynlífi, en þarf alls ekki alltaf að enda með því,“ segir Áslaug og segir það frábæra hugmynd að skipuleggja kynlíf.

„Það er kannski ekki gott að kalla það að skipuleggja, en hægt að segja frekar „að gefa kynlífi gaum“. Í langtímasambandi er oft eina leiðin til að eiga gott kynlíf að plana það, eins og allt annað sem við gerum.“

Ítarlegt viðtal er við Áslaugu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert