Simon ætlaði að flytja út eftir viku

Simon sagðist vera í miklu áfalli er hann sat og …
Simon sagðist vera í miklu áfalli er hann sat og fylgdist með slökkviliðinu kljást við eldinn. mbl.is/Anton

Simon, íbúi við Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði, missti allt sitt í eldinum sem enn logar í húsnæðinu. Simon segist í samtali við blaðamann hafa ætlað að flytja út úr húsnæðinu eftir viku. 

Blaðamaður ræddi við Simon á staðnum, en hann sat við gangstéttina á buxum, bol og inniskóm. 

„Ég var sofandi og fann lykt af reyknum. Ég fór út og ég veit ekkert,“ segir Simon. Hann segir eldinn ekki hafa verið í íbúð hans. 

Hann segist ekki vita hversu margir bjuggu í húsnæðinu. Hann hafi bara sofið þar og farið svo í vinnuna. Hvaleyrarbraut 22 er ekki skráð sem íbúðarhúsnæði heldur iðnaðarhúsnæði. Í þjóðskrá er enginn einstaklingur skráður þar til heimilis, aðeins tvö fyrirtæki.

mbl.is/Anton

„Ég bjargaði allavega sjálfum mér út“

„Ég á ekkert núna. Engin skjöl eða neitt,“ segir Simon sem ættaður er frá Póllandi. „Ég held að eldurinn hafi byrjað í íbúðinni í miðjunni. Ég bjó í horníbúðinni, en ég sá reykinn koma frá miðju húsnæðinu,“ segir Simon. 

„Allt sem ég átti er þarna inni,“ segir Simon. Hann segist ekki vita hversu margar íbúðir væru í húsnæðinu. 

„Ég ætlaði að flytja eftir viku, næsta mánudag,“ segir Simon. Hann segist ekki alveg vita hvað hann ætli að gera, hann hafi talað við Rauða krossinn en sé samt engu nær.

Hann eigi þó góða yfirmenn sem ætli að skjóta skjólshúsi yfir hann næstu tvær nætur. Hann vinnur á hóteli.

„Ég bjargaði allavega sjálfum mér út,“ segir hann að lokum.

mbl.is/Anton
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert