Slökkvistarf fram á nótt

Slökkvistarf við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði gæti haldið áfram inn í nóttina að sögn Birgis Finnssonar, starfandi slökkviliðsstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að húsnæðið sé líklega gjörónýtt. 

„Við vorum að vonast til þess að við næðum að rjúfa húsið í tvennt þannig við gætum haldið öðrum hlutanum en það gekk ekki upp. Við erum komnir með eld í þann hluta sem við sjáum hér næst okkur,“ segir Birgir sem talaði við blaðamann á staðnum fyrr í kvöld.

Um klukkan 17:15 í dag braust eldur út um glugga …
Um klukkan 17:15 í dag braust eldur út um glugga á efri hæð í vesturhluta húsnæðisins. mbl.is/Anton Guðjónsson

„Eldvarnir hússins eru ekki að spila með okkur“

Birgir segir að miðað við hvernig hlutirnir séu að spilast þá gæti slökkvistarf haldið áfram fram á nótt.

Eld­ur­inn kviknaði rétt eft­ir há­degi í dag og var allt til­tækt slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins kallað út. Nú þegar klukkan er farin að ganga átta segir Birgir ekkert verið að draga úr aðgerðunum.

„Núna er þetta að aukast aftur því þetta er komið yfir í annan hluta. Þetta er orðið þannig slökkvistarf að við erum ekki að senda slökkviliðsmenn inn. Við erum í rauninni að verja hluta hússins og gerum það með stórvirkum vélum,“ segir Birgir og bætir við: „Eldvarnir hússins eru ekki mikið að spila með okkur“.

Stefnir í að húsnæðið verði gjörónýtt?

„Jú, það er því miður ekki flóknara,“

Allt bendir til þess að ekki hafi orðið mannfall

„Við teljum að allir hafi komist út. Við fengum Rauða krossinn til þess að fara yfir það og það er ekkert sem bendir til annars,“ segir Birgir.

Hann segir hins vegar að íbúar í húsnæðinu hafi margir verið erlendir ríkisborgarar og að einhverjir þeirra séu taldir vera erlendis.

„Við getum ekkert fullyrt um það en það er ekkert sem bendir til annars en að allir sem hafi verið í húsinu hafi komist heilir út,“ segir Birgir.

Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.
Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Anton Guðjónsson

Eldurinn var þegar búinn að dreifa sér

Birgir segir að ekki sé vitað um það hvernig eldurinn kviknaði en eldsupptökin hafi því miður orðið fyrir miðri byggingunni.

„Það eru margar einingar og hólf í þessari byggingu. Eldur er búinn að dreifa sér töluvert þegar við fáum tilkynninguna. Það var í upphafi flókið að átta sig á því hvar við kæmumst að eldinum,“ segir Birgir sem segir aðgerðirnar hafa verið umfangsmiklar.

Aðgerðirnar hafi í upphafi mikið snúist um að bjarga fornbílum út úr húsinu að beiðni eigenda og leigjenda hússins. „Það væri miklu meira virði heldur en að fara í að slökkva,“ segir Birgir.

Hann segir það hafa farið fram með góðri aðstoð þeirra sem eiga bílana og með aðstoð nágranna í götunni.

„Það tókst að bjarga töluverðu af verðmætum en ég ætla ekki að gera lítið úr því að það var töluvert sem var ekki hægt að bjarga,“ segir Birgir.

Umfangsmikið slökkvistarf stendur enn yfir í Hafnarfirði.
Umfangsmikið slökkvistarf stendur enn yfir í Hafnarfirði. mbl.is/Anton Guðjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert