„Ég hóf störf hjá þeim í janúar 2019, þá var ég tiltölulega nýflutt til Noregs,“ segir K Svava Einarsdóttir, hér eftir Svava, í samtali við mbl.is um nöturlega reynslu af starfi hjá norska ferðaþjónustufyrirtækinu Nordic Gateway í Bergen.
Svava er einn sex fyrrverandi starfsmanna fyrirtækisins sem höfðað hafa mál á hendur því í Noregi vegna meintra alvarlegra lögbrota sem snúast um félagsleg undirboð, vangoldin laun, ólaunaða yfirvinnu, ólöglega ráðningarsamninga og ólöglegt rafrænt eftirlit á skrifstofu þar sem starfsfólkið komst hvorki á salerni né kaffistofu nema með því að opna hlið með fingrafaranema sem um leið var stimpilklukka. Voru Svava og samstarfsfólk hennar því stimpluð út og launalaus í hvert sinn sem þau fóru á salernið.
„Ég hóf störf þarna með margra ára reynslu frá skemmtiferðaskipabransanum á Íslandi,“ segir Svava frá en Nordic Gateway þjónustar skemmtiferðaskip sem heimsækja 42 hafnir í Noregi auk hafna á Íslandi, í Svíþjóð og Póllandi. Eigandi Nordic Gateway er pólskur en höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Svíþjóð og heita Baltic Gateway, fyrirtækið í Noregi er dótturfyrirtæki þess.
Svava hóf störf í skemmtiferðaskipageiranum á Íslandi í fullu starfi árið 2012 og fékk þegar starf hjá norska fyrirtækinu þar sem hún starfaði sem áfangastaðastjóri, eða destination manager.
Staða hennar var í raun stjórnunarstaða en annað sagði þó í ráðningarsamningi. „Þar kom skýrt fram að hún réði í raun engu, ekki vinnutíma, henni leyfðist ekki að vinna heima en átti þó í raun aldrei frí, viðskiptavinir hringdu á öllum tímum sólarhrings og Svava og samstarfsmenn hennar þurftu sífellt að svara tölvupósti, jafnt heima sem á skrifstofunni.
„Við sáum um öll samskipti við skipin, útgerðirnar létu okkur vita hve margir farþegar væru búnir að bóka sig í ferðir, við töluðum við birgjana, bókuðum allar rútur, heimsóknir á söfn, veitingastaði og allt sem tengdist ferðunum sem við vorum að selja,“ segir Svava af starfi sínu í Bergen.
„Við áttum að vera í samskiptum við skipin þegar á þurfti að halda, ég var ítrekað að fá símtöl um miðja nótt, snemma á morgnana, á frídögum og um helgar, við áttum alltaf að vera til taks, þó fengum við bara greitt fyrir venjulegan átta tíma vinnudag,“ heldur hún áfram.
Nordic Gateway var stofnað árið 2015 og höfðu tveir fyrrverandi samstarfsmanna Svövu, sem nú eru í hópi sexmenninganna sem hafa stefnt fyrirtækinu, starfað þar frá upphafi. „Allir sem unnu hjá fyrirtækinu voru útlendingar nema yfirmaður okkar, hann var norskur, og hann hætti fyrir jól í fyrra. Hann fékk engu stjórnað í raun og veru og gafst bara upp,“ segir Svava.
Hinn raunverulegi stjórnandi var eigandinn í Svíþjóð sem fjarstýrði starfsfólkinu í Noregi með harðri hendi að sögn Svövu. „Ef við gerðum eitthvað vitlaust var hann fljótur að hringja í okkur eða senda okkur póst um hvað við gerðum vitlaust, það sem við gerðum rétt var hins vegar bara starfið okkar og ekki minnst á það.“
Vegna reynslu Svövu af þessari gríðarstóru atvinnugrein, flutningi ferðamanna um heiminn með lúxusfleyjum á stærð við mörg fjölbýlishús, var hún frá upphafi látin sjá um Íslandsmarkað Nordic Gateway.
„Ég var þá í samskiptum við birgja sem ég auðvitað þekkti frá fyrri tíma, var að bóka ferðir til Íslands og ferðir á Íslandi, maður þekkir náttúrulega gullna hringinn og allt þetta helsta,“ segir hún frá en senn leið að starfslokum. Heimsfaraldurinn lagðist á alla ferðaþjónustu og allt mannlegt líf á útmánuðum 2020 og hætti Svava þá störfum í apríl eftir tæplega eins og hálfs árs starf. „Þá var ég líka farin að sjá svo mörg rauð flögg að mér leist ekki á blikuna en þegar faraldurinn byrjaði stoppaði náttúrulega allt.“
Vinnumarkaðurinn fetaði sig varfærnislega í gang þegar kórónuveiran linaði tak sitt á heimsbyggðinni. Svövu sóttist hægt að finna vinnu í Noregi og hóf því störf hjá Nordic Gateway á nýjan leik um áramótin 2021-'22.
„Ég kom þá þarna inn og bað um að þurfa ekki að vinna með Ísland, enda var önnur manneskja í því. Hún fór hins vegar í veikindaleyfi strax og þá var ég látin sjá um Ísland og Stavanger. Ég sá um 130 skip bara í Stavanger og var svo með skipið Hamburg á minni könnu sem kom tvisvar til Íslands, annaðist allar bókanir í tengslum við það,“ rifjar Svava upp.
Álagið á starfsfólkið hafi fljótt orðið þannig að veikindafríin hrönnuðust upp og bættist starf ofan á starf ofan á starf eins og Svava orðar það. Þau hafi þá brugðið á það ráð að leita til verkalýðsfélagsins, Handel og kontor, en það hefur mikinn fjölda skrifstofu- og verslunarfólks undir sínum verndarvæng.
Vænghafið reyndist hins vegar ekki mikið að sögn Svövu. „Maður borgaði þvílíkar upphæðir þangað en þeir komu alls staðar að lokuðum dyrum, Nordic Gateway hunsaði þá algjörlega og að lokum sögðu þeir við okkur að þeir gætu rosalega lítið gert,“ segir Svava.
Lokaúrræðið hafi verið að leita til norska vinnueftirlitsins, Arbeidstilsynet, sem fer með mikil völd og getur verið mjög hart í horn að taka þegar vinnuveitendur gerast brotlegir við umfangsmikla norska vinnulöggjöf. Enda tóku hjólin að snúast.
„Eftirlitsmenn þaðan höfðu varla kynnst öðru eins þegar þeir sáu vinnutímann hjá okkur og að eftirlitsmyndavélar væru inni í okkar vinnurými á skrifstofunni. Svo var það fingrafaraskanninn sem var tengdur stimpilklukkunni. Við komumst ekki út af skrifstofunni til að fara fram í eldhús eða á klósettið nema með því að nota skannann og þá stimpluðum við okkur út um leið. Maður átti að vera fulla átta tíma á skrifstofunni, annars kom bara tölvupóstur: „Þú skuldar okkur 1,6 tíma!“,“ segir Svava af vinnuumhverfi sínu hjá Nordic Gateway.
Vinnueftirlitið hafi hins vegar lagt ítarlega skýrslu fyrir æðstu stjórnendur fyrirtækisins þar sem öll þeirra lögbrot voru tíunduð og með þann byr í seglum sínum höfðuðu sexmenningarnir mál og fengu dómsúrskurð um frystingu eigna Nordic Gateway sem nam launakröfum þeirra. Skuldar fyrirtækið Svövu upphæð sem nemur tæpum sex milljónum íslenskra króna en í tilfelli þess sem mest á þar inni er upphæðin nálægt fimmtán milljónum.
Lögmenn starfsmannanna fyrrverandi telja skjólstæðinga sína með sterkt mál í höndunum en Nordic Gateway hefur hins vegar nýlega skipt sínu gamla lögmannateymi út fyrir nýja lögmenn sem líkast til munu taka til varna fyrir fyrirtækið sem kært hefur dómsúrskurðinn um frystingu eigna til Lögmannsréttar Gulaþings í Bergen.
Verður kæran tekin þar fyrir 30. ágúst og mun Svava verða þar „viðstödd“ með aðstoð fjarfundabúnaðar en hún er flutt til Íslands þar sem hún er komin á kaf í ferðaþjónustuna á nýjan leik.
Hefur norska vinnueftirlitið nú lagt þrettán kröfur um úrbætur fyrir Nordic Gateway sem fyrirtækinu ber að bregðast við fyrir 8. september ellegar verður starfsstöðvum þess í Noregi lokað.
Fylgst verður með framvindu mála hér á mbl.is en þess má geta að norski fjölmiðillinn TV2 hefur einnig fjallað um Nordic Gateway í úttektinni Skuggahlið skemmtiferðaskipanna, eða „Cruiseturismens skyggeside“, þar sem meðal annars er rætt við Quentin Herbecq, franskan fyrrverandi samstarfsmann og meðstefnanda Svövu, sem segir farir sínar ekki sléttar.
Greinir TV2 frá því að sexmenningarnir krefjist alls þriggja milljóna norskra króna, jafnvirði 37,2 milljóna íslenskra króna, í vangoldin laun og orlof yfir tveggja ára tímabil ásamt vöxtum og lögfræðikostnaði.