Brunavarnir fórnarkostnaður húsnæðisvandans

Miklar skemmdir eru á húsinu við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði.
Miklar skemmdir eru á húsinu við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgir Finnsson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir húsið við Hvaleyrarbraut hafa verið á lista slökkviliðsins um ósamþykkt húsnæði. Mikill eldur kviknaði í húsinu í gær en ekki var hægt að nálgast lista yfir íbúa þar sem húsnæðið er skráð sem atvinnuhúsnæði og því ekki samþykkt til búsetu.

„Búseta í atvinnuhúsnæði er orðið lifandi verkefni, það bætist á listann bæði þegar við fáum ábendingar eða eigendur hafa samband við okkur til að tryggja að sitt húsnæði sé öruggt,“ segir Birgir í samtali við mbl.is. 

Vilja ekki svipta fólk húsnæði

Slökkviliðið hóf að vinna sig niður lista af ósamþykktum húsnæði í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg árið 2020, þar sem þrír létu lífið, til að tryggja öryggi fólks og að brunavörnum sé framfylgt.

Hann segir ætlun yfirvalda með listanum sé ekki að svipta fólk húsnæði heldur þvert á móti að tryggja öryggi þess og skrásetningu, þrátt fyrir að húsnæði sé ósamþykkt. Mikill húsnæðisvandi ríki á höfuðborgarsvæðinu og því engin vilji til þess að henda fólki út.

Birgir segir hættu á því að brunavörnum sé ekki framfylgt …
Birgir segir hættu á því að brunavörnum sé ekki framfylgt þegar eftirspurn eftir húsnæði er mikil. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eigandi getur gerst brotlegur við lög

Aðspurður hvort öryggi íbúa og brunavarnir verði þá eins konar fórnarkostnaður í húsnæðisvandanum, segir Birgir vissulega hættu á því að brunavörnum sé ekki framfylgt þegar eftirspurn eftir húsnæði sé svo mikil. Oft geti verið kostnaðarsamt að ganga frá húsnæði og brunavörnum eftir reglugerðum og það mæti því stundum afgangi. 

Hann ítrekar þó að eigandi húsnæðis beri ávallt ábyrgð á brunavörnum og öryggi íbúa. Eigendur geti gerst brotlegir við lög tryggi þeir ekki brunavarnir að sögn Birgis sem vísar til fyrri dóms þar sem eigandi hlaut dóm fyrir slíkt. 

Heimildir mbl.is herma að eigendur húsnæðisins séu sex samtals. 

Tvíþættur vandi

Hann segir tvo starfshópa innviðaráðuneytisins hafa skilað tillögum að laga- og reglubreytingum varðandi búsetu fólks. Vandamálið sé tvíþætt því eins og í tilfelli hússins á Hvaleyrarbraut er sá að engin var þar skráður til heimilis þar enda ekki hægt að skrá búsetu í atvinnuhúsnæði. 

Hinn vandinn sé íbúðarhúsnæði líkt og húsið á Bræðraborgarstíg þar sem breytingar höfðu ekki verið samþykktar og brunavarnir ekki verið uppfærðar. Mikill fjöldi fólks dvaldi í húsinu en einnig var fjöldinn allur af fólki með skráða búsetu í húsnæðinu þrátt fyrir að búa þar ekki og því ómögulegt að vita hverjir kynnu að vera í húsinu þegar bruninn kom upp og hverjir ekki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka