„Ég veit hvar börnin þín fara í skóla“

Fjölnir Sæmundsson er formaður Landssambands lögreglumanna.
Fjölnir Sæmundsson er formaður Landssambands lögreglumanna.

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, segir einstakt að gengið hafi verið eins langt og raun bar vitni þegar kveikt var í bifreið lögreglukonu fyrir utan heimili hennar fyrir skemmstu.

Lögreglumenn finna fyrir vaxandi ofbeldi og hótunum. Stundum lenda þeir í aðstæðum þar sem þeir þurfa að stíga til baka og bíða eftir liðsauka vegna aukins vopnaburðar. 

„Lögreglumenn eru því miður alvanir því að láta hóta sér. En við höfum rætt það okkar á milli undanfarið að það hafi komið til stigmögnunar. Sérstaklega með tilliti til aukins vopnaburðar," segir Fjölnir.

Fordæmalaust að staðið sé við hótun

Hann segir það algjörlega fordæmalaust að staðið hafi verið við hótun og farið heim til lögreglumanns líkt og íkveikjan er dæmi um.

„Það er algjörlega nýtt stig þegar einhver fer að heimili lögreglumanns og stendur við svona hótun. Þetta er algjörlega nýr veruleiki fyrir okkur sem við þurfum að velta fyrir okkur hvernig við tökum á,“ segir Fjölnir.

„Þarna var kveikt í bíl fyrir utan fjölbýlishús. Það eru börn og fleiri inni í húsinu. Þetta er skrefi lengra en farið hefur verið áður," segir Fjölnir.

Hann segir að viðkomandi lögreglukona njóti meiri verndar eftir atvikið. Það eigi við um fleiri lögreglumenn sem vinna að tilteknu máli.

Stigmögnun hefur orðið í vopnaburði á Íslandi.
Stigmögnun hefur orðið í vopnaburði á Íslandi. mbl.is/Hallur Már

„Svo hefur maður ekki trú á því að aðrir sem hafa atvinnu af glæpum séu sáttir við svona vinnubrögð. En það breytir því ekki að við finnum fyrir aukinni hörku og miskunnarleysi,“ segir Fjölnir.

Finnast hvergi í þjóðskrá 

Hann segir dæmi um að lögreglumenn fái undanþágu frá því að birtast í þjóðskrá. „Menn vilja ekkert að allir viti hvar fjölskylda þeirra býr,“ segir Fjölnir. 

Hann segir það hafa gerst að keyrt hafi verið fram hjá heimilum lögreglumanna með áberandi hætti.  „Ég veit hvar þú átt heima. Ég veit hvar börnin þín fara í skóla. Þetta eru dæmi um algengar hótanir sem lögreglumenn fá,“ segir Fjölnir.

Suma lögreglumenn er hvergi að finna í þjóðskrá.
Suma lögreglumenn er hvergi að finna í þjóðskrá. mbl.is/Kristinn Magnússon

Látnir framkvæma verknaðinn 

Fjölnir segir það ekki launungarmál að tilkoma skipulagðra glæpasamtaka hafa breytt íslenskum veruleika. Haft hefur verið á orði innan lögreglunnar að á Íslandi séu nú í fyrsta skipti til glæpamenn sem hafa fengið herþjálfun.

„En í tilfelli íkveikjunnar þá eru þetta ungir menn sem hafa enga slíka þjálfun skilst mér. Það gæti alveg verið að þeir séu ekki höfuðpaurar í málinu heldur séu látnir framkvæma verknaðinn. Það er þekkt,“ segir Fjölnir.

Varaðir við vopnuðum 

Fjölnir segir lögreglufólk ekki síst horfa til aukins búnaðar sem óskað hefur verið eftir til þess að auka eigið öryggi. Stundum sé lögreglan vanbúin til að takast á við aðstæður. 

Lögreglumönnum er reglulega hótað í starfi.
Lögreglumönnum er reglulega hótað í starfi.

„Það hefur komið fyrir að lögreglu hafi verið ógnað með skotvopni þó því hafi ekki verið beitt. Lögreglumenn finna stundum vopn í bílum og þegar lögreglan er að lýsa eftir mönnum þá er stundum vitað til þess að viðkomandi geti verið vopnaðir. Þá eru lögreglumenn varaðir við því áður en þeir fara á staðinn,“ segir Fjölnir.

Íkveikjumálið tengist Svíþjóð

Hann telur nú svo komið að stíga þurfi niður fæti og stöðva þessa óheillaþróun. Þróunin er eins alls staðar á Norðurlöndunum. „Það virðist sem þróunin hefjist alltaf í Svíþjóð og berist svo til hinna Norðurlandanna,“ segir Fjölnir. 

Er ekki svo að það eru sænsk tengsl við mál lögreglukonunnar?

„Jú, það er kallað það. Menn sem hafa tengsl við Svíþjóð,“ segir Fjölnir.

Svo virðist sem stigmögnun hefjist í Svíþjóð áður en hún …
Svo virðist sem stigmögnun hefjist í Svíþjóð áður en hún breiðist til hinna Norðurlandanna. JANERIK HENRIKSSON
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert