Esjuskaflinn brátt allur

Árni kveður lítið eftir af skaflinum, örfáa smáa fláka, tvo …
Árni kveður lítið eftir af skaflinum, örfáa smáa fláka, tvo þeirra þó sýnu meiri um sig en hina. Ljósmynd/Árni Sigurðsson

„Já, ég er einmitt staddur hérna í Gunnlaugsskarði, nýbúinn að kíkja á skaflinn og hann er hér enn þá,“ segir Árni Sigurðsson veðurfræðingur þegar mbl.is nær honum í síma í könnunarleiðangri hans að skaflinum annálaða í Esjuhlíðum.

Úr höfuðborginni virðist fljótt á litið sem svo að skaflinn sé horfinn, nokkuð sem að sögn Árna gerðist síðast árið 2019. Svo er þó ekki. „Hér eru nokkrar skellur, tvær þeirra stærstar og sú stærri þeirra er kannski tíu fermetrar og svona tuttugu sentimetra þykk,“ segir Árni af skaflinum.

Ekki ætlar hann leifum skaflsins þó langlífi. „Ég held hann fari fyrir mánaðamótin. Það er spáð hlýindum í þessari viku og ég held að hann verði alveg horfinn fyrir mánaðamót,“ segir Árni.

„Skafl beygjattu skalli,/þótt skúr á þig falli./Ást hafðir þú meyja,/eitt …
„Skafl beygjattu skalli,/þótt skúr á þig falli./Ást hafðir þú meyja,/eitt sinn skal hver deyja,“ orti Þórir Jökull á kili sínum en óvíst hvort ljóðmælandi hafi þar haft skaflinn í Esjunni í huga. Ljósmynd/Árni Sigurðsson

Horfið reglulega eftir aldamót

Auk þess sem skaflinn hvarf alveg árið 2019, „í kringum 21. september“, segir veðurfræðingurinn án þess að hugsa sig um, hvarf hann að sögn Árna árið 2012, þó mjög seint, í byrjun október. „Svo fór hann nokkuð reglulega milli 2000 og 2010, þá var hlýindakafli,“ rifjar hann upp.

Fyrir það hlýskeið segir Árni skaflinn líklega ekki hafa horfið með öllu síðan 1965 eða þar um bil. „Það var kuldatímabil, hafístímabil, kringum '70 og '80,“ segir Árni og hverfur aftur í tímann.

Esjan er einn vinsælasti vettvangur gönguþyrstra íbúa höfuðborgarsvæðisins og annarra …
Esjan er einn vinsælasti vettvangur gönguþyrstra íbúa höfuðborgarsvæðisins og annarra landsmanna. Ljósmynd/Árni Sigurðsson

„Ég ólst upp á skíðum og gat alltaf farið í Hveradalabrekkuna, þar var alltaf snjór, ég var í Jósepsdalnum og þá þurfti maður ekkert að fara upp í Bláfjöll,“ rifjar veðurfræðingurinn upp og hlær. Aldeilis breyttir tímar nú.

Brást Árni góðfúslega við því að taka nokkrar myndir sem fylgja hér með spjallinu um síðustu daga skaflsins í Gunnlaugsskarði síðsumarið 2023.

Árni spáir skaflinum ekki margra lífdaga til viðbótar eins og …
Árni spáir skaflinum ekki margra lífdaga til viðbótar eins og vel má lesa út úr þessari mynd. Ljósmynd/Árni Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert