Kerfið enn að senda boð um að það sé farið í gang

Leigjendur iðnaðarbila við Hvaleyrarbraut 22 telja ólíklegt að hægt verði …
Leigjendur iðnaðarbila við Hvaleyrarbraut 22 telja ólíklegt að hægt verði að bjarga einhverjum munum úr brunarústunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þarna voru munir sem voru mér mjög kærir,“ segir Jóhannes Viðar Bjarnason, eigandi Fjörukrárinnar og iðnaðarbils á Hvaleyrarbraut 22 sem varð eldi að bráð í gær.

Allt tiltækt lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað út rétt eftir hádegi í gær þegar eldur kom upp í iðnaðarhúsnæði við Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði. Erfiðlega gekk að ná tökum á eldinum, en slökkvistarfi lauk á fimmta tímanum í nótt.

Jóhannes Viðar segist ekki vera búinn að taka saman hversu mikið tjónið er, en hann segist hafa geymt mikið af verðmætum í bilinu.

„Við héldum að það væri á öruggum stað, en svona fór það,“ segir Jóhannes Viðar.

Íbúð á efri hæðinni

Á efri hæð bilsins er Jóhannes Viðar með litla íbúð, sem hann segir hafa öll tilskilin leyfi brunavarna. Íbúðin hefur þó ekki verið í útleigu, en hún var notuð á tímabili þegar tíð innbrot voru í iðnaðarbilið.

Þegar búið var að setja upp öryggiskerfi í bilinu þurfti þó ekki lengur að hafa öryggisvörð í íbúðinni og því var enginn þar þegar eldurinn kom upp.

Loftið hrunið

Spurður hvort hann haldi að hægt verði að bjarga einhverju úr bilinu segir Jóhannes Viðar það ólíklegt.

„Ég var að skoða þetta í morgun og þá sá ég að loftið var hrunið,“ segir Jóhannes Viðar sem fór á vettvang í morgun og gat horft inn í bilið sitt, enda ekki leyfilegt að fara þar inn þar sem vettvangurinn er enn lokaður.

Svakalegt áfall

„Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort það sé allt brunnið,“ segir Jóhannes Helgi Einars Bachmann, eigandi Leigufélags Landsmanna ehf., sem leigir iðnaðarbil á Hvaleyrarbraut undir atvinnustarfsemi.

Jóhannes Helgi var að fletta í gegnum Facebook þegar hann sá frétt um eldsvoðann og myndir af húsinu. Hann segist hafa rokið af stað, en þegar hann var að klæða sig í útiföt fékk hann símtal frá Securitas um að öryggiskerfið væri að senda frá sér brunaboð.

Kerfið enn að senda frá sér brunaboð

„Kerfið er enn þá að senda mér boð um að það sé farið í gang,“ segir Jóhannes Helgi sem ekki hefur getað farið inn til þess að slökkva á kerfinu.

Aðspurður hvort hann telji brunaboðið ekki hafa komið heldur seint segir hann það alls ekki svo, enda bilið hans í hinum enda hússins. Þá segir hann brunakerfið hafa farið af stað vegna reyks þar sem eldurinn náði ekki í hans bil fyrr en seinna.

„Þetta sýnir svart á hvítu hvað það munar miklu að hafa góð brunakerfi, kerfið virkaði mjög vel,“ segir Jóhannes Helgi sem mælir með því að fólk sé með góð brunaboðunarkerfi.

Enn verk fyrir hendi hjá tæknideildinni

Tæknideild lögreglunnar hefur tvívegis farið á vettvang brunans í dag, að sögn Helga Gunnarssonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir tæknideildina þó líklega þurfa að fara á vettvang aftur á morgun þó málið sé ekki rannsakað sem sakamál samkvæmt niðurstöðu frumathugunar á vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert