Ný gjaldskrárhækkun sem Matvælastofnun hefur boðað mun gera bændum og litlum sláturhúsum erfitt fyrir ef marka má umsagnir sem borist hafa inn í samráðsgátt stjórnvalda vegna hækkunarinnar.
Bændasamtök Íslands leggjast meðal annars alfarið gegn því að drög að gjaldskrá þessari taki gildi. Hafa Bændasamtökin og Samtök fyrirtækja í landbúnaði sameiginlega farið fram á það við matvælaráðuneytið að málið verið dregið til baka. Í bréfi þess efnis segir meðal annars:
„Þau drög sem hér um að [sic] ræðir fela í sér grundvallarbreytingu á innheimtu eftirlitsgjalda og í raun gríðarlegan kostnaðarauka fyrir atvinnugreinina, nái málið fram að ganga, á sama tíma og greinin er að glíma við mikla rekstrarörðugleika.“
Í drögum að nýju gjaldskránni er tekið fram að fyrir eftirlit með heilbrigðisskoðun á sláturdýrum skuli greitt eftirfarandi tímagjald:
Almennt tímagjald, 13.439 kr.
Tímagjald fyrir heilbrigðisskoðun sláturdýra og tengda þjónustu, 10.709 kr.
Þá segir að vegna breytinga á uppsetningu gjaldskrár við daglegt eftirlit í sláturhúsum, úr eftirlitsgjaldi á hvert kíló yfir í tímagjald, verði gjaldskráin innleidd í þrepum. Fyrsta almanaksárið (2023) verði innheimt 80% af tímagjaldi og tímagjaldið því 10.709 kr. í stað 13.387 kr.
Tekið er fram að greitt sé fyrir undirbúning og frágang ásamt þeim tíma sem fer í ferðir fyrir hvert eftirlit eða veitta þjónustu og þá er greitt fyrir hvern hafinn stundarfjórðung. Ekki er greitt hærra tímagjald en 1 klst. vegna keyrslu til og frá næstu starfsstöðvar MAST sem sinnir viðkomandi þjónustu að þeim stað þar sem þjónustuverkefnið fer fram.
Í umsögn frá Erlendi Björnssyni, bónda á Seglbúðum, og Guðjóni Þorkelssyni, prófessor og ráðgjafa, sem send var til samráðsgáttar 31. mars segir að ný gjaldskrá MAST muni margfalda eftirlitskostnað smáframleiðenda og draga úr nýsköpun á landsbyggðinni.
Þá hækki nýja gjaldskráin, samkvæmt þeirra útreikningum, kostnað sláturhússins á Seglbúðum um 800% en árið 2022 hafi hann verið um 270 þúsund krónur en verði um 2,2 milljónir með gjaldskrárbreytingunni. Rekstur fyrirtækisins muni því aldrei geta staðið undir þessum kostnaði og neyðist þá til að hætta starfsemi.
Nú er ljóst að sú er staðan því í síðustu færslu sem sett var inn á Facebook-síðu Seglbúða kemur fram að starfseminni verði hætt í haust og ljóst sé að ekki verði slátrað þar þetta árið en slátrun hefur farið fram árlega í Seglbúðum síðan árið 2014.
Í fyrrnefndri umsögn Erlendar til samráðsgáttar kemur fram að núverandi gjaldskrá byggist á gjaldi sem er 5,5 kr/kg á framleiddu kjöti.
„Kílóagjaldið hefur stuðlað að starfsemi smærri sláturhúsa. Á öllum Norðurlöndum er stutt við smáframleiðendur með því að niðurgreiða kostnað við heilbrigðisskoðun. Þannig er hámarksgjald fyrir heilbrigðisskoðun í litlum sláturhúsum í Noregi 1 norskar kr/kg eða um 13 kr/kg.“
Þar segir einnig að um 1000 lömbum sé slátrað á hverju hausti í Sláturhúsinu á Seglbúðum sem geri um 17 tonn af kjöti.
„Þannig þjónar sláturhúsið um 20 innleggjendum sem vinna og selja kjötið beint frá býli. Þannig verður til meiri vinna og virðisauki sem annars myndi fara annað.“