Segir brunavarnir teknar niður til að stækka rými

Ævar Sigmar Hjartarson, formaður húsfélagsins, segir að flóttaleið hafi verið …
Ævar Sigmar Hjartarson, formaður húsfélagsins, segir að flóttaleið hafi verið tekin niður við eitt rýmið til að stækka það. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ævar Sigmar Hjartarson, formaður húsfélagsins við Hvaleyrarbraut 22, segir einn eigandann hafa fjarlægt flóttaleið til að stækka eigið rými. 

„Það er altjón hjá mér,“ segir Ævar í samtali við mbl.is. Hann hélt þar úti tómstundaaðstöðu og geymslu fyrir iðnaðarbíl í rými sínu sem nemur 169,8 m².

Ævar kveðst hafa vitað til þess að leiguhúsnæði væri haldið úti í húsinu, en hann þekki þó lítið til leigusalanna.

„Ég hef aldrei hitt það fólk sem hefur verið með þetta til leigu,“ segir Ævar og bætir við að tíð eigandaskipti eigi sér stað á rýmunum og eigendurnir lítið sótt húsfundi.

Eins og að henda björgunarvestum fyrir borð

Húsinu hefur verið komið í þokkalegt ástand og margt lagfært á síðustu árum að sögn Ævars og spurður hvort brunavarnir hafi verið fullnægjandi að hans mati kveðst hann telja svo vera að undanskildum einum stað.

„Þar var búið að taka flóttaleið niður til að stækka rýmið hjá einum aðila,“ segir Ævar, en hann segir brunavegg og útgang hafa verið fjarlægða til að byggja viðbót en þrjú bil hafi haft aðgang að brunaútganginum, þar á meðal hans eigið.

„Þetta er bara eins og ef björgunarvestum í skipi væri hent fyrir borð,“ segir Ævar.

Að hans sögn var einnig komið upp millilofti í rýminu sem var stækkað og ofan á því loftpressu en frá henni hafi leitt röralagnir upp að risinu, þar sem eldurinn var áberandi mestur. 

Lengi verið vandamál

Hann segir það með öllu óboðlegt fyrir fólk að búa í húsnæðinu. Það hafi lengi verið vandamál að leiguhúsnæði sé haldið þar úti þrátt fyrir að húsið sé atvinnu- og skrifstofuhúsnæði. 

„Þetta eru ekki íbúðir, þetta er iðnaðarhúsnæði þar sem eru skrifstofur sem er búið að setja sófa og rúm.“

Hann segir kvartanir ítrekað hafa verið sendar til byggingarfulltrúa og heilbrigðiseftirlitið. Hann hafi síðast kvartað árið 2016 og hafi þá verið brugðist við með að vísa fólki út úr húsnæðinu, sem höfðu búsetu þar.

Hann segir úttekt hafa verið gerða á brunavörnum árið 2016 þegar fólki var vísað úr húsnæðinu en því hafi ekki verið fylgt eftir síðan þá.

Ekki öruggt til búsetu

Hann segir eldvarnir hafa verið bættar í kjölfarið af mörgum aðilum en að húsið sé einfaldlega ekki til þess gert að fólk dvelji þar. 

„Þetta er iðnaðarhúsnæði, við erum með gas, við erum með olíur, logsuðutæki og slípirokka og annað. Hættan er svo mikil að einhver farist bara ef upp kemur eldur,“ segir Ævar. 

Hann segir slökkviliðið hafa staðið sig vel og eigi þökk skilið fyrir slökkvistörfin en það komi honum spánskt fyrir sjónir að slökkviliðsstjóri segi að skrá þurfi fólk í slík húsnæði til að tryggja öryggi.

Að mati Ævars sé ómögulegt að tryggja öryggi fólks í slíku atvinnuhúsnæði sem séu með engum hætti hæf til búsetu. Hann eigi því erfitt með að skilja að sumir vilji að rýmka reglur um skráningu íbúa í iðnaðarhúsnæði. 

„Það er ekki hægt að bjóða upp á það að fólk sé í svona húsnæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert