Slökkvistarfi lauk í nótt

Eldurinn kviknaði á hádegi í gær í húsi við Hvaleyrarbraut …
Eldurinn kviknaði á hádegi í gær í húsi við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði. mbl.is/Anton Guðjónsson

Slökkvistarfi lauk við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði um klukkan 4:30 í nótt að sögn Þorsteins Gunnarssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. 

Í samtali við mbl.is segir hann að verulega hafi dregið úr umfangi á vettvangi um klukkan eitt í nótt og voru átta slökkviliðsmenn að störfum til klukkan 4:30 til að ganga úr skugga um að allt væri í góðu lagi. 

„Mjög stór hluti hússins er ónýtur, einhverjir hlutar skárri en aðrir,“ segir Þorsteinn spurður hvort að húsið sé gjörónýtt. 

„Þetta endaði með því að við þurftum að rífa stóran hluta af þakinu þannig að skemmdirnar urðu miklar.“

Ekki vitað um neinn í húsinu

Er orðið alveg ljóst að enginn var inni í húsinu?

„Já, enn sem komið er allavega vitum við ekki um neinn þarna.“

Þorsteinn segir að er dagvaktin tekur við verða hugsanlega nokkrir sendir á vettvang til þess að yfirfara svæðið. 

„Hvort að það sé eitthvað sem hafi tekið sig aftur upp frá því áðan,“ segir hann og bætir við að lögreglan hafi nú vettvanginn í sinni umsjá.

Hefur slökkviliðið einhverjar hugmyndir um eldsupptök?

„Nei, bara ekki hugmynd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka