Standa eftir heimilislaus í kjölfar eldsvoðans

Þrír starfsmenn Hrafnistu í Hafnarfirði voru íbúar í húsinu við …
Þrír starfsmenn Hrafnistu í Hafnarfirði voru íbúar í húsinu við Hvaleyrarbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír starfsmenn Hrafnistu í Hafnarfirði voru meðal þeirra sem bjuggu í húsnæðinu við Hvaleyrarbraut þar sem upp kom eldur í gær.

Jakobína Árnadóttir, mannauðsstjóri á Hrafnistu, segir Hrafnistu standa með starfsfólkinu, sem standi eftir allslaust, og aðstoða það við að leita að nýju heimili.

Ekki á vegum Hrafnistu

Í samtali við mbl.is segir hún Hrafnistu ekki hafa útvegað starfsfólkinu húsnæðið við Hvaleyrarbraut, en að hún og aðrir starfsmenn hafi frétt af eldinum strax í gær. Starfsfólkið hafi tapað öllum sínum eigum og sé því í talsverðu áfalli, þó þau beri sig vel. 

„Við erum búin að útvega þeim gistingu alla vega næstu nætur og svo ætlum við að reyna að hjálpast að við að finna eitthvað til frambúðar.“ 

Jakobína biðlar til fólks að hafa samband við verkefnastjóra á mannauðssviði Hrafnistu á netfanginu sigrun.bjorg@hrafnista.is, viti það af þriggja herbergja íbúð í Hafnarfirði, Garðabæ eða Kópavogi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert