Maðurinn sem grunaður er um að hafa drepið Jaroslaw Kaminski í Drangahrauni, sem fannst látinn af stungusárum morguninn 17. júní, segist hafa stungið Kaminski í sjálfsvörn. Maðurinn mun sæta gæsluvarðhaldi til 8. september.
Í gæsluvarðhaldsúrskurði Landsréttar kemur fram að maðurinn lýsti því yfir að um sjálfsvörn hafi verið að ræða.
Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhald frá 17. júní og er málið komið á borð héraðssaksóknara.
Greint var frá textaskilaboðum sem hinn grunaði sendi áður en hann á að hafa banað Jaroslaw. Í þeim stóð meðal annars: „[Þ]essi vitleysingur fyrst drep ég hann svo hengi ég mig.“
Aftur á móti sagðist hinn grunaði ekki hafa meint neitt með skilaboðunum, þegar þau voru borin undir hann.
Þegar skýrsla var tekin af manninum þann 17. júní sagðist hann hafa stungið Kaminski einni stungu en önnur skýrsla var tekin 21. júní þar sem hann gekkst við því að hafa stungið hann ítrekað og bar fyrir sig sjálfsvörn.
Þrjú vitni sögðu einnig manninn hafa sagt þeim frá því að hann hefði stungið Kaminski. Samkvæmt bráðabirgðaskýrslu í tengslum við réttarkrufning voru fimm skarpar stungur á líkinu, þar af þrjár í efri hluta búks.
Í úrskurði segir að niðurstöðurnar bendi sterklega til þess að dánarorsökin sé stunguáverki í framhluta vinstri holhandar, með sárgangi inn í hjartað.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er varnaraðili undir sterkum grun um manndráp. Brotið varðar 16 ára eða ævilangt fangelsi. Rannsókn málsins er lokið að öðru leyti en því að beðið er eftir endanlegri krufningarskýrslu.