Eindregin rigning í kortunum um helgina

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að miðað við spárnar verði úrkoman …
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að miðað við spárnar verði úrkoman meiri en í þessum sudda og skúrum sem hafa verið og að það bleyti vel í. Kort/Veðurstofa Íslands

Það er mjög líklegt að það muni rigna eindregið um land allt um helgina en það er óvissa um magn og nákvæma tímasetningu að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings.

Einar heldur úti veðurvefnum Bliku þar sem hann veltir fyrir sér aðstreymi raka á stóru svæði í átt að landi frá hlýjum hafsvæðum langt í suðri.

Nóg til að bleyta jarðveginn

Í samtali við mbl.is segir Einar að úrkoman verði meiri en í þessum sudda og þessum skúrum sem hafa verið og að það bleyti vel í.

„Á sumrin er mikil uppgufun frá jarðveginum og það þarf að rigna talsvert til að yfirvinna hana. Sú rigning sem við þurfum til að bleyta jarðveginn og væta í og bæta í grunnvatnið er úrkoma af þessum toga.“

Einar tekur það skýrt fram að um vangaveltur sé að ræða og að það sé enn þá bara þriðjudagur. Hann segir spárnar flestar hverjar ekki gera ráð fyrir því að það verði áframhald á þessari úrkomu en segir fróðlegt að fylgjast með því sem mun gerast í framhaldinu.

Í háloftunum er afgerandi hæðarhryggur eins og Einar greinir frá og honum fylgja vænir sumardagar fram á föstudag. Vestan hans er hins vegar uppstreymi og rakaþétting. Þannig mun ef að líkum lætur þykkna upp með suðlægri vindátt í stað norðanáttar af hægu gerðinni.

„Við ættum miðað við þessar spár að sleppa við þetta fram á miðjan föstudag og jafnvel lengur þar til við komum í vesturhlutann á þessum hæðarhrygg en þá þykknar upp og opnast fyrir þessa suðvestanátt sunnan úr höfum. Við höfum ekkert verið að sjá suðvestanátt af þessum toga frá því einhvern tímann í júní.

Vestan hæðarhryggsins er uppstreymi og rakaþétting. Þannig mun ef að …
Vestan hæðarhryggsins er uppstreymi og rakaþétting. Þannig mun ef að líkum lætur þykkna upp með suðlægri vindátt í stað norðanáttar af hægu gerðinni. Kort/Bandaríska alríkisveðurstofan, GFS

Fyrstu teikn um haustrigningar?

Segir hann að einhver myndi spyrja sig hvort um væri að ræða fyrstu teikn um haustrigningarnar. Einar segir að minnsta kosti miðað við þessar spár um einhverja breytingu að ræða og að það sé verið að ryðja einhverjum hindrunum úr vegi og opna fyrir einhverjar leiðir.

Þótt suðvestanáttir séu mögulega væntanlegar í fyrsta sinn síðan í júní um helgina segir Einar ómögulegt að segja hvort þetta sé í raun eingöngu frávik og norðlægar áttir verði áfram.

„Úrkoman eykst að jafnaði þegar líður á sumarið. Hún gerir það í september og er svo mest í október. Með þessari árlegu veðurfarssveiflu förum við inn í fleiri daga með rigningu og dumbungi. Það er svona þetta venjulega haustveður.“

Þá segir Einar verða straumhvörf hátt upp í heiðhvolfinu um þetta leyti árs, í kringum 25. ágúst, þá byrji aftur vestanátt þar uppi eftir að vindur hefur verið aðeins austanstæður yfir sumarið. Segir hann það vera haustmerki þegar byrjar að blása með vestanátt. Þá sé norðurhjarinn byrjaður að kólna og stýri því að vindáttin verði vestlæg.

„Það er oft fyrirboði haustlægðanna en þær hitta nú ekkert endilega á okkur. Þær geta líka farið yfir Bretlandseyjar og jafnvel enn sunnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert