Alls hefur 435 umsóknum um vernd frá ríkisborgunum Venesúela verið hafnað í ár. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Útlendingastofnunar sem taka til tímabilsins frá janúar til júlí.
Þórhildur Hagalín upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar segir í samtali við Morgunblaðið að þetta sé afleiðing þess að ástandið í Venesúela hafi verið endurmetið fyrr á árinu en það mat leiddi í ljós að aðstæður fólks væru mismunandi og ekki jafnalvarlegar og mat frá fyrra ári leiddi í ljós. Því sé nú hver og ein umsókn metin.
„Þegar þetta breytta mat lá fyrir biðu margar umsóknir afgreiðslu og þetta eru niðurstöður úr mörgum af þeim málum. Rétt er að taka fram að ekki hefur öllum verið synjað,“ segir Þórhildur en 42 ríkisborgarar frá Venesúela hafa fengið vernd hér það sem af er ári. Umsóknir þaðan eru 1.208. Enn er beðið niðurstöðu kærunefndar útlendingamála um ákvarðanir Útlendingastofnunar um umræddar synjanir.
Alls hefur 2.751 umsókn um vernd borist í ár. Af þeim umsóknum sem hafa verið afgreiddar og snúa ekki að fjöldaflótta hefur 864 verið synjað en 284 verið samþykktar. Flestar samþykktar umsóknir eru frá Palestínu, 91 talsins. Þar á eftir koma umsóknir frá Sýrlandi, 43 alls, og 42 frá Venesúela.