Háværar drunur heyrðust víða um borgina þegar að því er virtist þrjár B-2 Spirit sprengjuflugvélar úr flugsveit bandaríska flughersins flugu yfir.
Sjónarvottur sem mbl.is ræddi við kveðst hafa verið á göngu í Grafarvogi á fjórða tímanum í dag þegar vélarnar flugu yfir borgina. Slík voru lætin að viðkomandi nam staðar eins og fleiri sem voru á sama svæði og fylgdist með herlegheitunum. Stór hópur gæsa sem hafði verið í makindum á voginum ærðist við hávaðann og tók á loft.
Talsvert ónæði varð af flugi vélanna víðs vegar um höfuðborgarsvæðið en drunurnar vörðu í að minnsta kosti mínútu.
Vélarnar eru notaðar við æfingar flughersins með bandalagsríkjum Norður-Evrópu. Landhelgisgæslan annast framkvæmd verkefnisins í samvinnu við Isavia, í umboði utanríkisráðuneytisins.