Verið er að byggja skýli yfir nýbyggingu Kársnesskóla við Skólagerði í Kópavogi svo unnt verði að halda áfram byggingaframkvæmdum í vetur.
Svo sem fram hefur komið rifti Kópavogsbær samningi við ítalska verktakann Rizzani de Eccher í maí sl. vegna vanefnda. Fram höfðu komið gallar á byggingunni sem verktakinn hafði ekki bætt úr þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir þar um. Nú hefur bærinn sjálfur tekið við framkvæmdunum og verður því verkið ekki boðið út á nýjan leik.
Skólabyggingin var dæmd ónýt vegna rakaskemmda og myglu árið 2017 og rifin í framhaldinu.
Að sögn Sigríðar Bjargar Tómasdóttur, upplýsingafulltrúa Kópavogsbæjar, er nú verið að undirbúa framkvæmdir vetrarins eins og kostur er. Hreinsunarstarf á framkvæmdasvæði stendur yfir og bygging áðurnefnds skýlis yfir skólabygginguna svo unnt verði að vinna við mannvirkið í öllum veðrum í vetur. Markmiðið sé að húsnæðið verði tilbúið undir kennslu fyrir upphaf skólaárs 2024, þ.e. að réttu ári liðnu.
Að sögn Sigríðar Bjargar er gert ráð fyrir að byggingu nýs Kársnesskóla í Skólagerði ljúki fyrri hluta árs 2024 og stefnt sé að því að framkvæmdum ljúki að mestu á vordögum 2024. Sumarið verði nýtt til lokafrágangs og kennsla hefjist í nýju húsnæði í ágúst 2024. Kostnaður við framkvæmdirnar liggi ekki fyrir.