Segir MAST birtast eins og nátttröll

Bjarni segir nýja gjaldskrárhækkun Matvælastofnunar gegn markmiðum um nýsköpun og …
Bjarni segir nýja gjaldskrárhækkun Matvælastofnunar gegn markmiðum um nýsköpun og tekjumöguleika til sveita. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna og formaður utanríkismálanefndar, segir nýja gjaldskrárhækkun Matvælastofnunar ganga þvert gegn markmiðum um nýsköpun og tekjumöguleika til sveita. Þetta kemur fram í færslu Bjarna á Facebook fyrr í dag. 

Hækkunin bregði fæti fyrir gott starf

„Hér birtist Mast, ekki í fyrsta skipti þegar heimavinnsla á mat er annars vegar, sem algjört nátttröll. Hér er verið að bregða fæti fyrir það góða starf sem víða er verið að vinna og stofnunin ætti þess í stað að vinna með og aðstoða eins og hlutverk slíkrar stofnunar á að vera,“ segir Bjarni meðal annars í færslunni.

Þá segir Bjarni að á undanförnum árum hafi borið á mikilli grósku í fjölbreyttri heimavinnslu á mat beint frá býli sem og tilkomu örsláturhúsa sem þjóni einstökum býlum eða nærsamfélaginu til frekari fullvinnslu á afurðum og virðisauka. 

Hafi sú þróun hleypt nýju lífi í byggðir víða og stuðlað að spennandi nýsköpun og tekjumöguleikum til sveita. Loks hvetur Bjarni til þess að gripið verði í taumana og stofnunin rétt af með þeim hætti að hún vinni með en ekki gegn nýsköpun og fjölbreyttri heimavinnslu.

Hægt er að sjá færslu Bjarna í heild sinni hér fyrir neðan. 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert