Slökkvistarfið lækkaði þrýstinginn á kalda vatninu

Mikið vatn var notað til slökkvistarfsins á skömmum tíma.
Mikið vatn var notað til slökkvistarfsins á skömmum tíma. mbl.is/Kristján Johannessen

Þrýstingur á kaldavatnslögnum í Hafnarfirði lækkaði umtalsvert á sunnudag, meðan á slökkvistarfi stóð við Hvaleyrarbraut 22.

Guðmundur Elíasson, umhverfis- og veitustjóri í Hafnarfirði, segir þrýstinginn hafa lækkað vegna þess hve mikið vatn var notað til slökkvistarfsins á skömmum tíma. 

Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst útkall rétt eftir hádegi á sunnudag um eld í iðnaðarhúsnæði við Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði. Mikill eldur var í húsinu sem nú er gjörónýtt og lauk slökkvistarfi ekki fyrr en á fimmta tímanum aðfaranótt mánudags. 

Eðlilegt að þrýstingur lækki

Guðmundur segir mjög eðlilegt að þrýstingur lækki þegar mikið álag er á kerfinu, til að mynda vegna slökkvistarfs. Um helgina lækkaði þrýstingurinn þó meira en vanalegt er, segir Guðmundur. 

Aðspurður segir Guðmundur ekkert við þessu að gera þar sem kerfið er uppbyggt með þessum hætti, en bætir því þó við að sem betur fer sé vandamálið mjög sjaldgæft.

Að lokum segir hann þrýstinginn hafa verið komin í samt lag um fjórum til fimm klukkutímum eftir að slökkvistarf hafði náð hámarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert