„Það gengur ekkert upp nema það sé allt öruggt“

Birgir segir þetta ekki gott ástand og leggur því áherslu …
Birgir segir þetta ekki gott ástand og leggur því áherslu á að unnið verði eftir tillögum starfshópa innviðaráðuneytisins. mbl.is/Anton Guðjónsson

„Bruninn sýnir hversu mikilvægt það er að halda áfram með þessa vinnu,“ segir Birgir Finnsson, starf­andi slökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborg­ar­svæðinu, spurður hvaða lausn slökkviliðið myndi vilja sjá er varðar búsetu í ósamþykktum íbúðum.

At­vinnu­hús­næðið á Hval­eyr­ar­braut 22 var á lista yfir hús­næði sem grun­ur lék á að búið væri í. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafði ekki fengið kvartanir um að eldvarnir í húsnæðinu væru í ólagi, líkt og í ljós kom um helgina er upp kom mikill eldur í húsinu.

Innviðaráðherra skipaði tvo starfshópa í apríl 2022 til að útfæra og fylgja eftir tillögum úr skýrslu samráðsvettvangs um úrbætur á brunavörnum, sem gerð var í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg 1, sumarið 2020.

Skýrslurnar standa fyrir sínu

Birgir segir að eitt af því sem slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur verið að skoða í kjölfar brunans við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði um helgina, sé hvort bruninn breyti einhverju er varðar þessar tillögur.

Hann segir slökkviliðið þó þeirrar skoðunar að skýrslan standi enn þá fyrir sínu og að bruninn sýni mikilvægi þess að halda vinnunni áfram.

Annar stýrihópurinn leggur meðal annars til að heimilt verði að skrá búsetu eða aðsetur í atvinnuhúsnæði, heimild til sektarákvæða og heimild slökkviliðs til þess að skoða íbúðarhúsnæði, ásamt fleiri tillögum sem ganga út á það að fólki verði heimilt að búa í atvinnuhúsnæði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, segir Birgir.

Birgir segir ekkert ákveðið um það hvaða sektarúrræði kæmu til greina, en hann telur líklegt að í þeim gætu falist heimildir til þess að sekta „þegar hlutirnir eru ekki eins og þeir eiga að vera“.

„Í grunninn viljum við númer eitt, tvö og þrjú að hlutirnir séu í lagi,“ segir Birgir.

Geta ekki sett fólk á götuna

Spurður hvort hann telji slökkviliðið hafa nægan mannskap til þess að sinna eldvarnareftirliti segir Birgir slökkviliðið ekki hafa náð að sinna almennum skoðunum á fullnægjandi máta. Áhersla hefur verið lögð á eftirlit með ósamþykktum íbúðum, hvort sem það er í venjulegu íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði.

„Þetta er atriði sem að þarf að huga að. Hvort það þurfi að bæta við mannskap á forvarnarsviðinu til þess að takast á við þetta verkefni sem bara vindur upp á sig, til viðbótar við önnur verkefni,“ segir Birgir og bætir því við að allt taki sinn tíma, en slökkviliðið bíði nú eftir því að löggjöfin og formlegt regluverk í kringum þessa hluti verði bætt.

Aðspurður segir Birgir slökkviliðið að sjálfsögðu ekki sitja og bíða eftir úrræðunum, enda takast þeir daglega á við það verkefni að skoða hús og gera umsagnir. Hann segir umræðuna snúa að því að finna leiðir til þess að fólk geti búið í atvinnuhúsnæði.

„Fólk er búið að búa í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu í 20 ár. Við getum ekki tekið allt þetta fólk og sett það út á götu, þess vegna þurfum við að finna leiðir til þess að þetta sé öruggt og leyfilegt,“ segir Birgir.

Íbúðir og atvinnuhúsnæði

Spurður hvort við viljum að þróunin verði þannig að fólk búi fyrir ofan atvinnuhúsnæði segir Birgir það fara eftir brunahólfun frá annarri starfsemi hússins.

„Það gengur ekkert upp nema það sá allt öruggt,“ segir Birgir og vísar til þess að ef viðvörun í húsinu er góð, flóttaleiðir tryggðar og brunahólfun frá öðrum hlutum hússins tryggt, þá gæti það gengið.

Í því samhengi segir hann ekki verið að horfa fram hjá neinum reglum, enda hluti af því að lögleiða búsetuna, að eigendur húsnæðisins geti látið teikna og hann rýmin. Lagt teikningar fyrir byggingarfulltrúa og fengið þannig formlegar samþykktir fyrir ráðstöfuninni.

Nauðsynlegt að tryggja brunahólfun frá öðrum hlutum húsnæðisins.
Nauðsynlegt að tryggja brunahólfun frá öðrum hlutum húsnæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ábendingar um ósamþykktar íbúðir í kjölfar brunans

Að sögn Birgis hafa ábendingar borist um fleiri ósamþykktar íbúðir í kjölfar brunans. Líkt og fram hefur komið er slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu með lista yfir húsnæði, þar sem vitað er af búsetu í ósamþykktum íbúðum. Spurður hvaða þýðingu sá listi hefur og hvernig unnið sé út frá honum segir Birgir að slökkviliðið skoði þau hús sem þau fá vitneskju um.

Slökkviliðið fer þá á staðinn, framkvæmir skoðun, gerir athugasemdir ef hlutirnir eru ekki í lagi og fylgir málunum eftir þar til búið er að bregðast við athugasemdum. Þessar skoðanir segir hann jafnframt gerðar í samvinnu við byggingarfulltrúa sveitarfélaganna.

Birgir segir þetta þó ekki gott ástand og leggur því áherslu á að unnið verði eftir tillögum starfshópanna til þess að hægt verði að benda fólki á að það þurfi að sækja um leyfi til þess að vera með búsetu í atvinnuhúsnæði, auk þess sem það verði að uppfylla ákveðnar kröfur.

Aðspurður segir hann engin viðurlög til staðar í dag vegna íbúða í ósamþykktu húsnæði. Hann segir slökkviliðið þó hafa heimild til þess að loka húsnæði eða hlutum þess, telji það húsnæðið ekki öruggt og þegar ekki hefur verið farið eftir ábendingum slökkviliðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert