Engar sjáanlegar breytingar eru á landslagi við í kringum Öskju og Víti og niðurstöður mælinga á hitastigi og sýrustigi benda ekki til þess að jarðhitavirkni hafi verið á svæðinu.
Þetta eru fyrstu niðurstöður mælinga sem gerðar voru í síðustu viku en blaðamaður mbl.is og ljósmyndari fengu að fylgja vísindamönnum Veðurstofu Íslands í leiðangrinum.
Um er að ræða árlegar mælingar sem gerðar eru við Víti og Öskjuvatn en Dr. Melissa Anne Pfeffer og Dr. Michelle Maree Parks fóru fyrir ferðinni.
Tilkynningin barst þann 12. ágúst um gufustrók sem sást við jaðar Bátshrauns. Telja vísindamenn að um hafi verið að ræða ryk vegna grjóthruns úr bröttum hlíðum öskjunnar.
Yfirborðsmælingar voru einnig gerðar við Öskju í síðustu viku en það var Erik Sturkell, prófessor við háskólann í Gautaborg, sem framkvæmdi þær. Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, tekur við keflinu af honum í þessari viku.
Hallamælingar síðustu viku sýna engar breytingar á staðsetningu landrisins og hefur sama þróun, sem hófst árið 2021, haldið áfram líkt og mbl.is greindi frá í síðustu viku.