„Hefðum viljað sjá fleiri þingmenn“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála-og vinnumarkaðsráðherra fór með ræðu á fundinum.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála-og vinnumarkaðsráðherra fór með ræðu á fundinum. Eyþór Árnason

Margt var um manninn í húsakynnum Hjálpræðishersins á Suðurlandsbraut í kvöld þar sem fram fór samráðsfundur um málefni flóttafólks sem synjað er um alþjóðlega vernd. Boðað var til fundarins í kjölfar sameiginlegrar yfirlýsingar sem 28 félagssamtök sendu frá sér í fyrr vikunni um að tryggja þurfi mannréttindi fólks á flótta sem svipt hafi verið þjónustu hins opinbera. 

„Málið snýst um þjónustumissinn“

Að sögn Nínu Helgadóttur, teymisstjóra málefna flóttafólks hjá Rauða krossinum á Íslandi, fór fundurinn vel fram. Hún segir fundinn hafa verið málefnalegan og góðan vettvang fyrir alla aðila til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. 

„Á fundinum var ekki opin mælendaskrá, heldur komu þau félagasamtök sem vildu upp í pontu, lýstu sínum sjónarmiðum, aðstæðum skjólstæðinga sinna og báru upp spurningar,“ segir Nína, en aðalumræðuefni kvöldsins snéri að hvernig staðið er að þjónustu hins opinbera gagnvart fólki á flótta eftir að því hefur verið synjað um alþjóðlega vernd hér á landi.    

„Málið snýst um þjónustumissinn og þær afleiðingar sem hann getur haft í för með sér,“ segi Nína. „Því miður virðist ekki vera á hreinu hvernig eigi að bregðast við þessu en fundargestir voru fullvissaðir um það sé vinna í gangi til að finna út úr því.“

Öllum þingmönnum boðið

Auk ráðherra sem hafa með málaflokkinn að gera fengu allir þingmenn boð á viðburð kvöldsins, en meðal þeirra sem lögðu leið sína á Suðurlandsbraut í kvöld voru Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála-og vinnumarkaðsráðherra og Bryndís Haraldsdóttir sem bæði héldu ræður. 

„Fyrir okkar leyti var gott að heyra að verið væri að vinna í málunum áfram og að það sé fullur vilji hjá stjórnvöldum fyrir því að finna lausnir sem tryggi mannrétindi þeirra einstaklinga sem um ræðir,“ segir Nína, en hún kveðst jafnframt hafa viljað sjá fleiri fulltrúa stjórnvalda sækja fundinn. 

Vonast til áframhaldandi samráðs

Nína segist vonast til áframhaldandi samráðs milli félagasamtakanna og yfirvalda svo hægt sé að finna viðunandi úrræði sem allra fyrst og sporna gegn því að flóttafólk sem hlotið hafi synjun endi á götunni.

„Ég held að þetta hafi verið mjög gott tækifæri fyrir alla til að koma saman, heyra beint af aðstæðum fólksins og sjónarmið samtakanna, reyna að auka skilning og sjá til þess að það sé búinn til jarðvegur til þess að finna viðunandi lausnir,“ segir Nína loks. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka