„Sú staða sem uppi er, að fólk sé að búa í óleyfishúsnæði sem ekki er undir nokkru eftirliti, það er algjörlega óviðunandi aðstaða,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra í samtali við mbl.is.
Aðspurður segir hann það enga spurningu að knýja þurfi í gegn tillögur starfshóps sem skipaður var af ráðuneytinu varðandi skrásetningu í óleyfisbúsetu og úrbótum á brunavörnum.
Ráðherra kom á laggirnar tveimur starfshópum í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg, en annar þeirra skilaði inn tillögum í vor og hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda í sumar. Tillögurnar lúta m.a. að lagabreytingum varðandi skrásetningu í óleyfisbúsetu, takmarkanir á fjöldaskráningum og fræðsluátaki um brunvarnir.
„Það auðvitað tekur tíma að koma því öllu á koppinn,“ segir Sigurður Ingi. Hann segir að ákveðnar lagabreytingar sem verði að tryggja. Það hafi verið til skoðunar að heimila búsetu í húsnæði sem þessu, gegn því að þau fari í gegn um eftirlit hjá viðeigandi aðilum.
Formaður húsfélagsins á Hvaleyrarbraut 22 sagði nýverið í samtali við mbl.is að húsakynnin væru með öllu óásættanleg til búsetu, enda atvinnuhúsnæði þar sem mikið væri um hættuleg eða heilsuspillandi efni.
Inntur eftir því hvort hægt sé að heimila búsetu í slíkum húsakynnum segir Sigurður Ingi að þar eigi ekki endilega við þetta tiltekna hús. Húsin þurfi einmitt af þeirri ástæðu að gangast undir mat sérfræðiaðila.
„Við þurfum fyrst og fremst meir athygli á þessa hluti og að þeir aðilar sem geta haft afskipti af, hafi heimildir til þess.“