Útboð ríkiskaupa á öflun loftmynda á Íslandi hefur verið stöðvað um stundarsakir þar sem kærunefnd útboðsmála telur verulegar líkur á því að útboðið brjóti gegn lögum um útboð sem geti leitt til ógildingar útboðsins. Þetta kemur fram í ákvörðun kærunefndarinnar, en enn er beðið þess að úrskurður falli í málinu.
Ákvörðunin var birt á vef kærunefndarinnar í gær, en er þó orðin yfir tveggja mánaða gömul þar sem hún féll 19. júní. mbl.is hefur fengið staðfest að enn hafi ekki endanlegur úrskurður verið felldur og því gildir enn niðurstaða ákvörðunarinnar um að útboðið sé stöðvað um stundarsakir.
Málið á rætur sínar að rekja til ákvörðunar til ákvörðunar umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins að láta Ríkiskaup auglýsa fyrir sig útboð í gagnvirkt innkaupakerfi fyrir stafræna loftmyndatöku. Er útboðið auðkennt sem „Digital Aerial Orhto Imagery in Iceland“. Í grunninn gengur það út á að taka myndir af öllu landinu úr flugvél í góðri upplausn, með sérstaka áherslu á enn betri upplausn af nokkrum þéttbýlisstöðum.
Fyrirtækið Loftmyndir hefur undanfarna áratugi verið á þessum markaði hér á landi og sagði Karl Arnar Arnarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, við mbl.is í maí að Loftmyndir hefðu þegar tekið myndir í þeim gæðum sem ráðuneytið væri að leitast eftir, jafnvel betri, og að sá grunnur væri til afnota fyrir ríkið og sveitarfélög. Hafði fyrirtækið þá kært útboðið til úrskurðanefndarinnar út frá nokkrum forsendum.
Var meðal annars vísað til þess að í grein 2.4.2.1 í útboðinu væri tekið fyrir að ef verktaki væri með flugvélaflota staðsettan í Evrópu myndi kaupandi (íslenska ríkið) bera ábyrgð á kostnaði við flutning vélanna til Íslands. Það gæti jafnvel átt við ítrekaðan flutning véla til landsins í þetta verkefni. Töldu Loftmyndir þetta vera mismunun fyrir innlenda bjóðendur.
Í ákvörðun kærunefndarinnar er rekið að ríkið hafi sagt í svörum til nefndarinnar að tekið yrði mið af þessum kostnaði og að hann myndi bætast við tilboðsupphæð ef koma ætti til flutnings. Kærunefndin taldi þessar skýringar Ríkiskaupa og ráðuneytisins hins vegar ófullnægjandi og að ekki komi fram í útboðsgögnum að mögulegar viðbótagreiðslur muni teljast sem hluti tilboðsfjárhæðinnar.
Telur nefndin að orðalag útboðsins beri með sér að bjóðendur eigi rétt á greiðslum sem leið til að deila áhættu varðandi flutning flugvélaflota til Íslands. Orðalag annars staðar styðji að þar sé um að ræða þóknun sem verði greidd án þess að verða hluti af tilboðsfjárhæð.
Skýringum ríkiskaupa og ráðuneytisins um að þetta séu greiðslur sem bætt verði við tilboðsfjárhæðina er því hafnað og segir í ákvörðuninni að með þessu hafi Ríkiskaup gert greinarmun á stöðu bjóðenda eftir því hvort þeir séu með flugvélar sínar staðsettar innan eða utan Íslands og að þessi munu geti haft mat á val tilboða í útboðinu.
Vegna þessa segir nefndin að skilmálinn brjóti gegn jafnræði bjóðenda og að „verulegar líkur hafi verið leiddar að broti gegn lögum nr. 120/2016 við hin kærðu innkaup og að þetta brot geti leitt til ógildingar á ákvörðunum.“ Var því fallist á að stöðvunarkröfu Loftmynda.