Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, tók í dag fyrstu skóflustunguna vegna framkvæmdanna á Arnarnesvegi, þriðja áfanga, milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar. Sigurður Ingi tók fyrstu skóflustunguna á gröfu og virtist kunna vel til verka á tækinu.
Um er að ræða 1,9 kílómetra vegakafla, tvö hringtorg, tvær brýr fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og göngu- og hjólastíga, sem samtals nema um 2,5 kílómetra.
Í samtali við blaðamann mbl.is kvaðst ráðherra fagna upphafi framkvæmda enda ein fyrstu áherslna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og því eitt af stærri verkum Betri samgangna.
„Þetta gjörbreytir bara öllu samgöngumynstri og ferðum hérna,“ segir Sigurður Ingi. „Svo auðvitað fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur verður þetta gríðarleg öryggisbót.“
Spurður hvort afurð verkefnisins muni ráða bót á umferðarteppum eins og þeirri sem sást í morgun kveðst ráðherra ekki efast um það. „En ekki fyrr en 1. ágúst, 2026. Verktakinn ætlar að klára þetta þá, þetta er stórt verkefni.“
Áætluð verklok eru 2026 en verkið er samstarfsverkefni milli Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Kópavogabæjar, Betri samgangna ohf., Veitna og Mílu.