Fyllt upp í undirgöng við Hlíðarenda

Upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar segir framkvæmdina færa svæðið nær því að vera …
Upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar segir framkvæmdina færa svæðið nær því að vera þétt miðborgarumhverfi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyllt hefur verið í undirgöngin við horn Flugvallarvegar og Nauthólsvegar við Hlíðarenda.

Inga Rún Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, segir framkvæmdirnar hluta af stærri breytingum sem séu í vændum og því aðeins einn liður í því að byggja upp við samgöngu- og þróunarás höfuðborgarsvæðisins.

Á næstu árum verður farið í að gera sérrými fyrir Borgarlínu með nýjum gangstéttum og hjólastígum.

Unnið er að því að gera lóðina byggingarhæfa og því …
Unnið er að því að gera lóðina byggingarhæfa og því þurfi að færa lagnir og göngu- og hjólastíga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Færa svæðið í þétt miðborgarumhverfi

Í svari við fyrirspurn mbl.is segir Inga Rún að unnið sé að því að gera lóðina byggingarhæfa og því þurfi að færa lagnir, gera gangstéttar og færa göngu- og hjólastíg sem liggur milli Hlíðarenda og Háskólans í Reykjavík.

Verið er að færa umhverfið á þessu svæði nær því að vera þétt miðborgarumhverfi og því verður ekki gerð önnur mislæg þverun, en í stað verður þverunin yfir Flugvallarveg bætt, sem og tengingar gangandi og hjólandi við gatnamót Nauthólsvegar og Flugvallarvegar.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert