Segir framkvæmdirnar ekki hægja á umferð

Myndin var tekin í gær, miðvikudagsmorgun, og sýnir umferð úr …
Myndin var tekin í gær, miðvikudagsmorgun, og sýnir umferð úr Kópavogi til Reykjavíkur um Kringlumýrarbraut í Fossvogi. mbl.is/Andrés

Framkvæmdir við Kringlumýrarbraut í Fossvogi, milli Reykjavíkur og Kópavogs, eru ekki ástæða þess að vegfarendur hafa þurft að sitja lengur í bifreiðum sínum en ella undanfarna morgna og síðdegi að sögn Bjarna Rúnars Ingvarssonar, starfandi deildarstjóra samgangna hjá Reykjavíkurborg. Ein akrein í norðurátt hefur verið lokuð á kafla vegna framkvæmdanna.

Unnið er að gerð strætóstöðva sem lengi hefur verið kallað eftir en þykir staðsetningin góð fyrir stúdenta í háskólunum sem og starfsfólk Landspítala sem getur tekið hlaupahjól frá tilvonandi stoppistöðum.

Bjarni segir gatnamót stýra því hversu mikið umferðarflæði er hverju sinni, og þá helst gatnamót Kringlumýrar og Listabrautar og svo gatnamót Hafnafjarðarvegar og Vífilsstaðavegar, við Hagkaup í Garðabæ, í þessu tilviki.

Umferð er heldur meiri á háannatíma þessa vikuna heldur en undanfarnar vikur en Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði við mbl.is í gær að fólk væri einfaldlega bara komið aftur úr sumarleyfum og skólar að hefjast.

Lengi kallað eftir stöðvum á þessum stað

Framkvæmdir standa nú yfir í Fossvoginum en unnið er að byggingu strætóstöðvar sem verða bæði austan- og vestanmegin við veginn. Þá er einnig unnið að því að bæta frárein inn í Suðurhlíðar.

„Þetta eru strætóstöðvar sem bæði HR, HÍ og Landspítalinn hafa kallað mikið eftir. Þetta er á þeim stað sem þægilegast er fyrir fólk að taka Hopp inn í háskólana eða á Landspítalan og sleppa þannig við umferðina í Hlíðunum,“ segir Bjarni Rúnar. 

„Samhliða því er verið að gera akrein inn í Suðurhlíðar frá Reykjavík í átt að Kópavogi. Það er akrein þar núna, en hún er ekki nógu löng. Hún þarf að vera miklu lengri,“ segir Bjarni. 

Framkvæmdir eru hafnar austanmegin við Kringlumýrarbraut og hefjast vestanmegin við …
Framkvæmdir eru hafnar austanmegin við Kringlumýrarbraut og hefjast vestanmegin við hana í september. Blálitaða svæðið fyrir miðju er umrætt framkvæmdasvæði. Kort/Framkvæmdasjá Reykjavíkurborgar

Grafin sundur á versta stað

Á þriðjudag var grafið í vatnslögn á framkvæmdarsvæðinu og varð af þeim sökum kaldavatnslaust í Fossvogi í um eina og hálfa klukkustund. „Veitur eru nú að laga lögnina, hún var bara löguð til bráðabirgða á þriðjudaginn. Það tekur alveg fjóra daga að laga lögnina alveg vegna þess að það tekur tíma að fá rétta efnið. Samkvæmt því sem ég hef heyrt var hún grafin í sundur á mjög óheppilegum stað,“ segir Bjarni Rúnar. 

Framkvæmdum austanmegin við veginn seinkar því um nokkra daga en stefnt var að verklokum þar í næstu viku. Þegar framkvæmdunum lýkur þeim megin verður hafist handa vestanmegin. Afnotaleyfi til framkvæmda rennur út 18. október og gerir Bjarni ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið fyrir þann tíma. 

Vatnslögn var grafin í sundur við framkvæmdir á þriðjudag og …
Vatnslögn var grafin í sundur við framkvæmdir á þriðjudag og tekur um fjóra daga að gera alveg við hana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hægir aðeins á umferð utan háannatíma

Ein akrein af þremur er lokuð á framkvæmdakaflanum og segir Bjarni lokunina ekki orsaka það að umferðin sé hægari á álagstímum.

„Fólk heldur sjálfkrafa að þessi lokun sé að fara auka tímann sem það tekur að keyra en það gerir það ekki í þessum aðstæðum sem eru þarna. Það gæti gert það utan háannatíma að fólk þurfi að taka auka tíu sekúndur til að hægja á sér framhjá framkvæmdasvæðinu. Á háannatíma eru það gatnamótin sem stýra því hversu mikið flæði er í gegn. Þessar framkvæmdir hafa bara takmörkuð áhrif á umferðarflæðið,“ segir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka