Spáir seinkun orkuskipta

Hvammsvirkjun í Þjórsá er í biðstöðu eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- …
Hvammsvirkjun í Þjórsá er í biðstöðu eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi virkjanaleyfi Landsvirkjunar úr gildi. Tölvumynd/Landsvirkjun

Markmið stjórnvalda um orkuskipti nást ekki árið 2040 eins og stefnt hefur verið að. Bíða þarf tíu árum lengur til að sá áfangi náist, þ.e. til ársins 2050. Þetta kemur fram í raforkuspá Landsnets sem kynnt verður í dag, fimmtudag, en í henni er spáð fyrir um þróun framboðs og eftirspurnar á raforku á tímabilinu 2023 til 2060.

Að mati Landsnets tvöfaldast raforkumarkaðurinn við full orkuskipti árið 2050. Raunhæft sé að ná markmiðum á forsendum notkunar það ár, komi ekki til takmarkana á framboði orku. Telur fyrirtækið að vöxtur markaðarins verði að talsverðu leyti hjá heimilum og smærri fyrirtækjum fyrstu árin, m.a. vegna orkuskipta.

Því er spáð að áform um nýjar vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir ásamt stækkunum þeirra virkjana sem fyrir eru muni ekki duga fyrir orkuskiptum. Þeir kostir sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar sem samþykkt var á Alþingi fyrir rúmu ári dugi ekki nema að takmörkuðu leyti til að mæta fyrirsjáanlegri þróun spurnar eftir raforku.

Horfa þurfi til fjölbreyttari orkugjafa eins og vindorku eða jafnvel sólarorku til að markmið náist. Mikilvægt er talið að ferli rammaáætlunar og annarra ferla sé virkt og nái að fylgja þróun eftirspurnar eftir raforku. Þegar rammaáætlun var loks samþykkt í fyrra, hafði hún verið í meðförum Alþingis í nær áratug.

Nú eru í undirbúningi virkjanir sem koma inn í rekstur á næstu fimm árum en Landsnet telur mikilvægt að hafinn verði undirbúningur virkjana sem komi í rekstur næstu 5 til 10 árin á eftir. Landsnet bendir á að tækni fyrir orkuskipti í samgöngum á landi sé að mestu leyti til staðar nú þegar en hún þróast jafnframt ört.

Vilji sé fyrir hendi til að orkuskiptum í samgöngum á landi verði náð fyrir 2040 en réttar ákvarðanir og hvatar leiki lykilhlutverk í því að slíkt markmið náist. Uppbygging innviða þurfi að styðja við þá þróun, bæði flutningskerfi raforku á milli landshluta sem og dreifikerfi.

Fjallað er nán­ar um málið í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert