Telur rafrænt eftirlit með slátrun lausnina

Sveinn Margeirsson telur að lækka megi kostnað við slátrun lamba …
Sveinn Margeirsson telur að lækka megi kostnað við slátrun lamba í heimahúsi með rafrænu eftirliti. Samsett mynd

„Almennt séð má segja að kostnaður við eftirlit og stjórnsýslu megi ekki verða þannig að hann sé svo íþyngjandi fyrir verðmætaskapandi starfsemi að það sé hreinlega ekki hægt að keppa við það eða fá arðsemi sem gefur þá möguleika til að keppa við til að mynda innflutning,“ segir Sveinn Margeirsson, fyrrum forstjóri Matís og núverandi framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftlagsmála hjá Brim.

Sveinn birti í gær á Facebook-síðu sinni færslu þar sem hann varpar fram þeim spurningum hvort einhvern tímann hafi farið fram áhættumat á heimaslátrun og hvort þörf sé í raun á þessum álögum sem Matvælastofnun, MAST, hefur boðað á bændur í landinu.

Þá veltir hann því einnig upp hvort mögulega megi nýta internetið til rafrænnar skoðunar á lömbum, líkt og Matís lagði til árið 2017.

„Við erum auðvitað alltaf að horfa á það að verðmætasköpun, í matvælaframleiðslu í þessu tilviki, þarf auðvitað að fara fram hönd í hönd við ábyrga framleiðsluhætti og þess vegna notum við sem samfélag, eða eigum að nota sem samfélag, áhættumat. Það er notað til þess að meta hvort veruleg áhætta sé fyrir neytandann á neyslu matvælanna eða er hún kannski tiltölulega takmörkuð?“

Sveinn segir að ef staðreyndin sé sú að áhættan sé tiltölulega takmörkuð þá sé ekki ástæða til þess að vera með jafn íþyngjandi eftirlit og ef um verulega áhættu væri að ræða.

Rafrænt eftirlit kostnaðarminna

Spurður að því hverju rafrænt eftirlit myndi breyta svarar Sveinn því til að það gæti dregið til að mynda verulega úr kostnaði.

„Þetta eru í rauninni tvenns konar spurningar. Fyrsta spurningin er í rauninni, og áhættumatið er grundvöllur svarsins við þeirri spurningu, er þörf á eftirlitinu? Og ef það er þörf, hversu ítarlegt þarf eftirlitið að vera?“

Sveinn segir það liggja í hlutarins eðli að því meiri tími sem fer í hverja eftirlitsheimsókn, þeim mun kostnaðarsamara verði eftirlitið. 

„Að teknu tilliti til launavísitölu og fleira er ekkert skrítið í rauninni að kostnaður Matvælastofnunar aukist og þar með þurfi þeir að láta eftirlitsþega greiða þann kostnað.

En þessari spurningu hefur mér að vitandi aldrei verið svarað. Gefum okkur að svarið við spurningunni sé eftir sem áður að það sé þörf á tilteknu magni eftirlits, og ég dreg engan veginn úr því, að sjálfsögðu er þörf á því, samkvæmt niðurstöðu áhættumats. Þá kemur í rauninni að því hvernig sinnum við þeirri þörf?“

Sveinn segir svarið við því tvenns konar. Annars vegar geti einhver persóna sest upp í bíl og keyrt langa vegalengd, fylgst með slátrun lambanna og keyrt svo til baka en hins vegar sé hægt að framkvæma matið með rafrænum hætti.

„Það tekur kannski ekki nema hálftíma að slátra lömbunum en viðkomandi keyrir svo aðra 200 km til baka og skrifar svo reikning upp á 5-6 klukkustunda vinnu, með þeim stoppum sem kjarasamningar kveða á um. Hinn möguleikinn er sá að viðkomandi einstaklingur sæti bara við tölvuna, eða væri bara með símann í höndunum, og fylgdist með vefútsendingu við slátrun þar sem að jafnvel nákvæmlega sömu upplýsingar kæmu fram.“

Tæknin nýtt í almennum fyrirtækjarekstri

Að sögn Sveins er þessi aðferð þekkt í fyrirtækjarekstri þar sem fá fyrirtæki hafi mannskap á öllum mögulegum stöðum. 

„Menn nýta til að mynda bara eftirlitsmyndavélar eða myndavélar til að fylgjast með færiböndum eða einhverju slíku. Þannig að ég held að það sé ljóst mál að það yrðu færri manntímar sem færu í þetta og þar með myndi kostnaðurinn fara niður heldur en með því fyrirkomulagi sem Matvælastofnun virðist vera að leggja upp með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert