Vinnur að frumvarpi um búsetuúrræði með takmörkunum

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra vinnur nú að frumvarpi um búsetuúrræði með …
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra vinnur nú að frumvarpi um búsetuúrræði með takmörkunum. mbl.is/Óttar

Frumvarp um búsetuúrræði með takmörkunum fyrir hælisleitendur og flóttamenn sem hafa fengið synjun um hæli og neita samvinnu við stjórnvöld er nú í vinnslu. Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra kveðst í samtali við mbl.is vonast til þess að geta lagt fram frumvarpið í haust. 

„Það hefur verið kallað eftir því að það finnist lausn fyrir þann hóp sem ekki ætlar að hlíta niðurstöðu stjórnvalds á Íslandi. Ég vísa í það sem öll lönd innan Schengen-samstarfsins eru að gera, og þar á meðal öll Norðurlöndin, og það er að vera með búsetuúrræði með takmörkunum fyrir þann hóp sem ber að yfirgefa landið þangað til að þau fara frá landinu,“ segir Guðrún.

Ísland á skjön við öll Schengen ríki

Frumvarpið er á frumstigi og kveðst Guðrún ætla vera með málið á þingskránni sinni. Hún segir ekki ljóst hvenær það verði klárt enda að mörgu sem þurfi að huga að. Vonast hún þó til þess að geta lagt það fram í haust eins og Ríkisútvarpið greindi fyrst frá. 

Guðrún segir Ísland vera algjörlega á skjön við aðrar Schengen þjóðir í þessum málaflokki.

„Það hafa komið fram athugasemdir til íslenskra stjórnvalda varðandi samstarfið í Schengen um að við séum eina ríkið sem er ekki að uppfylla þetta skilyrði í samstarfinu,“ segir ráðherrann.

Búsetuúrræðinu fylgja ferðatakmarkanir

Guðrún ítrekar að með svona úrræði séu að sjálfsögðu takmarkanir. Sumar þjóðir takmarki ferðafrelsi alveg og sumar séu með skipulagðan tíma sem fólk getur ferðast á og allt þar á milli. Hins vegar takmarkist frelsi fólks alltaf að einhverju leyti.

„Í búsetuúrræði sem þessum eru miklar kröfur gerðar eins og heilbrigðisþjónusta, sálfræðiþjónusta, útivistaraðstæða, líkamsrækt og annað. Það er allan tíman verið að vinna að velferð einstaklingsins,“ segir Guðrún og bætir við:

„Í svona úrræði er verið að vinna með einstaklingnum að farsælli heimför. Í dag erum við að beita hörðustu úrræðum sem hægt er gagnvart fólki sem á að brottvísa frá landinu, en neitar að una þeirri niðurstöðu. Eina úrræðið sem við höfum í dag er gæsluvarðhaldsúrskurðir á Hólmsheiði þar sem fólk lokað inni með dæmdum glæpamönnum og það þykir mér ekki gott.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert