Samtals hafa 240 ökumenn verið staðnir að hraðakstri við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu það sem af er vikunni. Fjórir þeirra eiga yfir höfði sér sviptingu ökuréttinda vegna þessa.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að komið hafi í ljós við umferðareftirlit á götum við grunnskóla í umdæminu í vikunni að ástandið sé ekki nógu gott.
Fellaskóli kom verst út, en þar keyrðu 51% ökumanna of hratt um götur í kringum skólann. Við Árbæjarskóla var ástandið skást, en þar var brotahlutfall ökumanna 5%.
Tveir ökumenn mældust á 71 km/klst hraða, en leyfður hámarkshraði við göturnar er 30 km/klst.