Ákvörðun um hækkun gjaldskrár MAST liggur hjá ráðuneytinu

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar, segir að ekki sé búið …
Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar, segir að ekki sé búið að setja í gang nýju gjaldskrána og ekki sé búið að taka ákvörðun um hvenær það verði gert. Samsett mynd

„Við fórum í ansi viðamikla greiningu á okkar kostnaði og rekstri, sem við hófum árið 2021 og kláruðum í fyrra, og það sýnir sig að sá kostnaður sem hlýst af eftirliti, sem sagt að við höldum úti eftirliti, gjöldin sem við erum að rukka standa ekki undir þeim kostnaði,“ segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar, spurð að því hvort MAST sé tilneydd til að hækka gjaldskrána líkt og stendur til að gera. 

„Við erum með greiningu hvað kostar að fara í eftirlit og sáum þar að gjaldskráin okkar endurspeglar ekki þennan kostnað þannig að því leytinu til eru bara rekstrarlegar forsendur að baki þess að hækka gjaldskrána.“ 

Fjármagnið eyrnamerkt öðrum verkefnum

Hrönn segir það skýrt í lögum að eftirlitsþegi skuli sjá um að greiða kostnað. Þá nefnir hún til samanburðar Evrópska efnahagssvæðið þar sem gerð sé sú krafa að eftirlitsþeginn greiði fyrir slíka þjónustu.

„Það sem við höfum gert er að við höfum því miður verið að nota fjármagn sem er eyrnamerkt í önnur verkefni til þess að halda úti þessari mikilvægu þjónustu. En inni í þessum drögum sem lágu inni í samráðsgátt í vor voru settar leiðir til niðurgreiðslu, meðal annars til bænda eða matvælaframleiðenda sem búa við það sem kallast landfræðilegar áskoranir og eru langt frá okkar skrifstofum, að þá væri aksturinn niðurgreiddur, það þyrfti ekki að greiða fyrir tímann sem fer í akstur og þess háttar þannig að það þarf að vera byggt á rökum sem standa gagnvart lögum.“

Þarf samtal á hærra stigi

Þá tekur Hrönn fram að þetta sé eitthvað sem stjörnvöld verði að taka ákvörðun um en ekki Matvælastofnun. 

„Þetta er samtal sem þarf að taka á miklu hærri grundvelli. Engu að síður er pólitíkin bundin ákveðnum stakki sem Evrópska efnahagssvæðið setur okkur en það eru leiðir til að niðurgreiða þetta.“

Að sögn Hrannar eru verkefnið örsláturhús, þar sem nokkrir bændur settu upp eigið sláturhús heima hjá sér eftir ströngum skilyrðum, greitt af ríkinu. Sá misskilningur hafi hafi hins vegar gjarnan verið uppi að MAST rukki fyrir þá þjónustu.

„Hins vegar minni sláturhús, eins og Seglbúðir, það mun óhjákvæmilega hækka einhver kostnaður á þá aðila og þá erum við í raun bara búin að greina hver okkar kostnaður er.“

Hrönn segist ekki sannfærð um að sú hætta sé fyrir hendi að ef fleiri lítil sláturhús, líkt og Seglbúðir, leggi upp laupana verði afleiðingin sú að við verðum háðari innflutningi.

„Í einhverjum tilfellum eins og hjá Beint frá býli að þá mögulega lækkar kostnaðurinn þar sem þessi gjaldskrá er miklu gegnsærri. Hún er í raun fjárhagslegur hvati fyrir aðilana að gera vel því þeim mun betur sem þeir standa sig, þeim mun minna eftirliti þurfa þeir á að halda þar sem okkar eftirlit er áhættumiðað.“

Landfræðilegar áskoranir flækja hlutina

En hefur áhættumat á heimaslátrun farið fram?

„Það er enn annar hlutur. Eftir því sem ég best veit var gerð tilraun í Svíþjóð varðandi rafrænt eftirlit og notaðar þá rafrænar lausnir og myndavélaeftirlit til þess að framkvæma það nauðsynlega eftirlit sem við þurfum að framkvæma. Raunin var hins vegar sú að það tók miklu lengri tíma og var þar af leiðandi dýrara fyrir þjónustuþegann.

Þar ertu að handstýra einhverjum aðila sem stendur með myndavél þannig að út frá þeirri tilraun virtist það erfiðara,“ svarar Hrönn og blaðamaður innir hana þá eftir því hvort slík rannsókn hafi verið prófuð hér á landi og þá með íslenskar aðstæður í huga.

„Við höfum reynsluna af því að það er erfitt netsamband oft víða þannig að það er ákveðin landfræðileg áskorun líka. Það eru því margir þættir sem hafa komið inn í en hvað varðar áhættumat að þá hefur það ekki verið framkvæmt því það er ekki leyfilegt að minnka eftirlit til slátrunar, samkvæmt Evrópureglugerðinni,“ segir Hrönn og bætir við að samkvæmt löggjöfinni verði að vera til staðar opinber dýralæknir við slátrun á öllum dýrum.

Spurð að því hvort löggjöfin kveði þá á um að dýralæknir megi ekki framkvæma eftirlitið rafrænt segir Hrönn:

„Það virðist vera kostnaðarsamara að framkvæma rafrænt eftirlit en sjálfsagt er einhver lögfræðilegur gráleiki þarna.“

Heimaslátrun er leyfileg án markaðssetningar

Þá tekur Hrönn fram að heimaslátrun sé allt annað því hún sé leyfileg þó ekki megi markaðssetja heimaslátraðar afurðir. 

„Það má ekki selja hana. Það er í raun og veru smá misskilningur að heimaslátrun sé bönnuð, hún er fullkomlega leyfileg en svo eru það þessu örsláturhús sem þurfa að vera undir eftirliti opinbers aðila.“

Að hennar sögn er þó einna mikilvægast að MAST fái svigrúm til að vinna sína vinnu svo hægt sé að sinna viðeigandi eftirliti.

„Ef við fáum ekki að sinna þessu eftirliti og við fáum í raun og veru eftirlitsstofnun ESRA á Ísland, þá er líka áhætta að það stöðvist matvælaframleiðsla.“

Ákvörðunin liggur ekki hjá MAST

Spurð að því hvort komi til greina að endurskoða hækkun gjaldskrárinnar eftir þau gríðarlegu andmæli sem sprottið hafa upp síðastliðna daga, frá til að mynda Bændasamtökum Íslands og Beint frá býli, segir Hrönn þá ákvörðun ekki liggja hjá MAST.

„Ákvörðunin liggur náttúrulega ekki hjá Matvælastofnun. Hún liggur hjá ráðuneytinu. Hins vegar höfum við skoðað þetta og það sem kannski þarf að koma fram í þessari umræðu er að Bændasamtökin og Beint frá býli eru ekki samleiddur hópur. Við höfum rýnt þetta og þetta mun jafnvel valda lækkun á kostnaði hjá einhverjum.“

En hvernig getur hækkun gjaldskrárinnar lækkað kostnað hjá einum en ekki öðrum?

„Af því að núverandi gjaldskrá er byggð upp á svo mörgum föstum gjöldum og ef við tökum sem dæmi að við komum inn á býli þar sem er allt í lagi þá tekur eftirlitið stuttan tíma. Það mögulega verður kostnaðarminna heldur en þetta fastagjald sem þeir greiða í dag.

Þeir sem munu hækka eru klárlega sláturleyfishafar. Afleiðingarnar eru upp og niður á eiginlega alla aðra fyrir utan kannski fiskeldið sömuleiðis, það mun sjálfsagt auka líka þar.“

Ekki búið að innleiða gjaldskrána

„Við gerum okkur alveg grein fyrir því að þetta mun sjálfsagt hafa mest áhrif á sláturleyfishafa og auðvitað höfum við áhyggjur af þeim afleiðingum. Við höfum sömuleiðis áhyggjur af því að geta ekki sinnt því eftirliti sem nauðsynlegt er og þar af leiðandi varið hagsmuni okkar skjólstæðinga sem eru neytendur og málleysingjar. Ef við náum ekki að halda úti því eftirliti sem nauðsynlegt er til að þetta verði matvælaöryggi að þá eru það í raun þessir tveir hópar sem munu í raun og veru skaðast.“

Aðspurð að lokum hvort dreifa hefði mátt hækkuninni á lengri tíma og taka hana í þrepum segir Hrönn að ekki sé búið að innleiða gjaldskrána.

„Tillagan að gjaldskránni kom inn í samráðsgátt í vor, það er ekki búið að innleiða hana. Það hafa margar leiðir verið skoðaðar til þess að innleiða hana í þrepum en þeirri umræðu er ekki lokið. Þetta var leiðin sem við settum þá. Við erum ekki búin að setja í gang þessa gjaldskrá og í raun er ekki búið að taka ákvörðun um hvenær það verður gert,“ segir Hrönn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert