„Auðvitað íþyngjandi fyrir marga“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vonar að vaxtahækkunarferillinn sé kominn á ákveðna …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vonar að vaxtahækkunarferillinn sé kominn á ákveðna endastöð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist vona til þess að vaxtahækkunarferillinn sé kominn á ákveðna endastöð. Hún segist hafa átt von á því að vextir yrðu hækkaðir en telur að síðustu tvær verðbólgumælingar sýna þróun í rétta átt.

„Það eru líka vísbendingar um að undirliggjandi verðbólga sé að lækka,“ segir Katrín að loknum ríkisstjórnarfundar í ráðherrabústaðnum nú rétt undir hádegi í dag. 

„Þetta er auðvitað íþyngjandi fyrir marga og ég vona að þessi vaxtahækkunarferill sé kominn á endastöð. Við höfum auðvitað kynnt okkar okkar aðgerðir í ríkisfjármálum og ég held það sé mjög mikilvægt að ítreka að þær eru að styðja við þetta markmið. Bæði verulegt aðhald í rekstri sem verður kynnt nú á eftir og aukin tekjuöflun á lögaðila í landinu,“ segir Katrín bendir á að gistináttagjaldinu verði komið aftur á og sérstök gjöld lögð á komur skemmtiferðaskipa. 

Í höndum peningastefnunefndar

Hún segir aðgerðirnar ríkisstjórnarinnar styðja við þetta sameiginlega markmið að lækka vaxtastig í landinu og að lækka verðbólguna.

Ríkisstjórnin kynnti í mars á þessu ári fjármálastefnu. Þar lagði Katrín mikla áherslu á að ná verðbólgunni niður. 

Telurðu þessar aðgerðir ykkar vera að virka?

„Meginverkefnið eru í höndum peningastefnunefndar [Seðlabankans] en þau fjárlög sem við erum að fara leggja fram eru í anda þeirrar áætlunar sem við lögðum fram í mars. Við teljum okkur hafa sent mjög skýr skilaboð með þeirri áætlun sem við lögðum fram,“ segir Katrín og vísar til þeirra aðgerða sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti á fundi í dag. 

Þar kynnti hann hagræðingu í rekstri ríkissjóðs en gert er ráð fyrir 17 milljarða króna ráðstöfun til að hægja á vexti útgjalda.

Spurð út í þá gagnrýni sem Alþýðusamband Íslands og VR hafa lagt fram á ferðaþjónustuna minnir Katrín á þær aðgerðir sem beinast að ferðaþjónustunni, auknar álögur. 

„Það virðist líka vera þensla í flestum atvinnugreinum,“ segir Katrín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert