„Dálítið langsótt“ af Ásgeiri að vísa ábyrgð annað

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á fundinum í morgun.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir það ekki vera hlutverk ríkisfjármálanna að halda aftur af verðbólgunni, heldur sé það hlutverk Seðlabankans. Hann segir orðið langsótt hjá Seðlabankanum að vísa ábyrgð á hárri verðbólgu á aðra en sjálfan bankann sem hafi verkfærin til að vinna bug á verðbólgunni. Bjarni segir jafnframt að ríkið hafi ekki komið í veg fyrir að Seðlabankinn nái árangri við að ná verðbólgunni niður.

Bjarni kynnti í dag áform ríkisstjórnarinnar um aukið aðhald í ríkisfjármálunum, en meðal annars er horft til 17 milljarða hagræðingar í formi lægri launakostnaðar ríkisins, sparnaðar í öðrum kostnaði ríkisstofnana og aðhalds ráðuneyta og verkefna á þeirra höndum.

Saknar þess að Seðlabankinn hafi trú á eigin verkfærum

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur ítrekað í tengslum við hækkun stýrivaxta síðustu fjórtán skipti minnt á ábyrgð ríkisstjórnarinnar við að auka aðhald til að hjálpa til við að ná niður verðbólgunni. Eftir fundinn í dag ræddi Bjarni við mbl.is og þótti honum greinilega nóg um þessar áminningar seðlabankastjóra.

„Það er hlutverk Seðlabankans að halda aftur af verðbólgunni og hann hefur til þess tæki og tól og er að beita þeim. Ég hef stundum saknað þess að Seðlabankinn láti sjálfur í það skína að hann hafi trú á því að þau verkfæri dugi. Mér finnst satt best að segja orðið dálítið langsótt að vísa ábyrgðinni á verðbólguhorfum á aðra en þann sem ber ábyrgð á því að halda aftur af verðbólgunni,“ sagði Bjarni.

„Það er hlutverk Seðlabankans“

Sagði hann ríkissjóð hafa gert sitt til að draga úr umsvifum undanfarið. „Það er alveg skýrt að ríkisfjármálin með þeim mikla afkomubata hafa fyllilega staðið með peningastefnunefndinni að draga úr umsvifum. Afkomubatinn er hreinlega til vitnis um það. Það er gríðarlega mikill afkomubati árið 2022 – meiri en við gerðum ráð fyrir sjálf – og það hefur haldið áfram á þessu ári. Það er ekki hlutverk ríkisfjármálanna að vinna bug á verðbólgunni. Það er hlutverk Seðlabankans. Og ríkisfjármálin eru ekki að þvælast fyrir Seðlabankanum í því hlutverki.“

Spurður um aðgerðirnar sem hann kynnti í dag og hvort þær myndu hjálpa til við að ná verðbólgunni niður segist Bjarni telja það. „Þessar aðgerðir, já, ég held að þær geti hjálpað til. Það er alveg örugglega að fara í rétta átt frekar en hitt, það er ekki spurning, en ég er aðallega að horfa til þess að við þurfum að ná endum saman að nýju, endurheimta fyrri styrk og gæta að skuldahlutföllunum og eiga fyrir útgjöldunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert