Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, segir að ekki hafi verið gefin rétt mynd af úthlutun lóða í Kársnesi við Kópavogshöfn. Meirihluti landsins hafi þegar verið í eigu Fjallasólar ehf. sem er í eigu Langasjávar ehf. en aðeins hluti í eigu Kópavogsbæjar.
Fjallasól hafi nýlega keypt lóðina dýru verði af fyrri eiganda hennar. Þetta kemur fram í færslu sem hann ritaði á Facebook í morgun.
Til stendur að byggja 150 íbúðir á svæðinu, svokölluðum reit 13, en Andri segir að aðeins 51 íbúð verði á hinu selda bæjarlandi sem úthlutað var til Fjallasólar án auglýsingar. Hann birti skýringarmynd með færslunni sem sjá má hér að neðan.
Minnihlutinn í Kópavogi hefur gagnrýnt gjörninginn, að lóðirnar hafi ekki verið auglýstar eins og reglur kveði á um. Þá hafi ekki verið fjallað um málið í bæjarráði áður en bæjarstjóri undirritaði samkomulagið við Fjallasól. Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi, sagði í samtali við mbl.is það algjöra svívirðu að fara með svona með eignir Kópavogsbúa.
Meirihlutinn hefur hins vegar fullyrt að nauðsynlegt hafi verið að úthluta lóðunum til Fjallasólar til að tryggja heildstæða uppbyggingu á reitnum. Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, sagði í skriflegu svari til mbl.is í gær að vandlega hafi verið farið yfir forsendur og tryggt að markaðsverð fengist fyrir lóðina.
Andri tekur undir þetta og útskýrir málið enn frekar.
„Á þessum tiltekna reit er sameiginlegur bílakjallari undir svæðinu og tæknileg atriði sem gera það að verkum að ákveðið var að bjóða bæjarlandið til sölu í tengslum við gerð uppbyggingarsamningsins án auglýsingar.“
Hann segir verðið sem Kópavogsbær fékk fyrir lóðina taka mið af fyrri viðskiptum með lóðir á reitnum og því sé óhætt að fullyrða að markaðsverð hafi fengist fyrir bæjarlandið.
„Rétt er að athuga að uppbyggingarsamningurinn við Langasjó hljóðar upp á 1,5 milljarð króna. Allt tal um að hagsmunir Kópavogsbúa hafi verið fótum troðnir eru innantómar upphrópanir,“ segir Andri.
Sveitarfélög eigi að hámarka það verð sem þau fá við lóðasölu og til að gæta jafnræðis eigi einnig að auglýsa lóðir til sölu, en vegna áðurnefndra atriða hafi það ekki verið hægt í þessu tilfelli.
„Það fékkst gott verð fyrir bæjarlandið og gott byggingarréttargjald fékkst fyrir önnur hús á reitnum. Þessir fjármunir fara í innviði á svæðinu, skóla, betri samgöngur og fegrun umhverfis.“