Fagna ákaft ákvörðun Svandísar

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir ekkert verða af hækkun gjaldskrár MAST …
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir ekkert verða af hækkun gjaldskrár MAST á næstunni. Samsett mynd

„Eins og gefur að skilja fögnuðum við ákaft þegar við lásum yfirlýsingu Svandísar á Facebook-síðu hennar. Þetta sýnir okkur og sannar að það borgar að láta í sér heyra og mótmæla kröftuglega í málum sem þessum sem er einmitt megintilgangurinn með samtökum eins og okkar. Þetta er mikill léttir og gefur meiri fyrirsjáanleika inn í sláturtíðina.“

Þetta segir Oddný Anna Björnsdóttir, fram­kvæmda­stjóri Beint frá býli og Sam­taka smáfram­leiðenda matvæla á Íslandi, eftir að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra fullyrti fyrr í dag að ekkert yrði af hækkun gjaldskrár Matvælastofnunar, í bili að minnsta kosti.

„Undanfarna daga hefur verið rætt um mögulega hækkun á gjaldskrá Matvælastofnunar og hugsanleg áhrif þeirrar hækkunar. Af því tilefni vil ég taka fram að ég hef ekki staðfest hækkun á gjaldskrá og hyggst ekki gera það að svo stöddu,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Svandísar.

Eftirlit mögulegt með myndavélum

Oddný Anna Björnsdóttir fagnar tíðindunum og segist vona að rafrænt …
Oddný Anna Björnsdóttir fagnar tíðindunum og segist vona að rafrænt eftirlit með slátrun verði möguleiki. Ljósmynd/Aðsend

Oddný Anna spyr hvort ekki séu tækifæri til að hagræða, til dæmis með nútímatækni, til að koma í veg fyrir að þessi hækkun verði gerð í framtíðinni.

Þar bendir hún á að meðal annars væri mögulegt að hafa eftirlit í gegnum myndavélabúnað, sérstaklega í minni sláturhúsum.

„Nú vonum við bara að ráðherra vinni með MAST að því að innleiða rafrænt eftirlit, að minnsta kosti í minni sláturhúsum, og byggja meira á áhættumati og innra eftirliti.“

Þá segir hún að nauðsynlegt sé að vera vakandi yfir því hvort tilteknir hlutar eftirlits séu nauðsynlegir og stuðli í raun að auknu matvælaöryggi og dýravelferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert