Flóttamannabúðir ekki til skoðunar við fjárlagagerð

Bjarni segir að ekki sé gert ráð fyrir flóttamannabúðum í …
Bjarni segir að ekki sé gert ráð fyrir flóttamannabúðum í fjárlögum sem nú eru í vinnslu. Hins vegar væri hægt að færa til fjármagn innan málaflokksins. Samsett mynd

Í fjárlagafrumvarpinu sem nú er í vinnslu í fjármálaráðuneytinu er ekki gert ráð fyrir útgjöldum til að byggja flóttamannabúðir, eða búsetuúrræði með takmörkunum fyrir hælisleitendur og flóttamenn, eins og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur nefnt framkvæmdina.

Hins vegar væri hægt að færa fjármuni til innan málaflokksins ef af framkvæmdinni yrði.

Guðrún staðfesti í gær að frumvarp um slíkt búsetuúrræði væri í vinnslu í sínu ráðuneyti og að hún vonaðist til að það yrði lagt fyrir Alþingi í haust.

Fyrst þurfi að ná samstöðu

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í samtali við mbl.is að í núverandi vinnu við fjárlögin sé ekki sérstaklega gert ráð fyrir því að fjármagna byggingu slíkrar aðstöðu.

„En mér finnst ekkert ótrúlegt að ef slíku úrræði yrði komið upp væri hægt að færa til fjármuni sem ella væru að fara annars staðar inn í hælisleitendamálin. En fyrst þarf að ná samstöðu um það með hvaða hætti ætti að útfæra slíkt,“ segir hann.

Bjarni fór á fundi í dag yfir stöðu ríkisfjármála og niðurskurðaráform á komandi ári. Hann hefur undanfarið ítrekað gagnrýnt kostnað við hælisleitendakerfið, en hann sagði fyrr í sumar að kostnaður við það væri kominn upp í um 15 milljarða á ári. Spurður út í þennan málaflokk á komandi ári segir Bjarni:

„Nú bíðum við úrskurðar kærunefndar varðandi Venesúela. Dómsmálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið eru að hefja samstarf vegna brottflutnings þeirra sem eiga að yfirgefa landið. Við verðum einfaldlega að treysta að allt stjórnkerfið okkar sé að finna leiðir til að draga úr þessum ótrúlega tilkostnaði við að afgreiða umsóknir um hæli á Íslandi. Sá kostnaður er kominn úr böndunum eins og ég hef oft sagt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert