„Ég heyri að Bjarni hafi boðað samdrátt í starfsmannahaldi ríkisins. Ég veit ekki hvernig hann ætlar að fara að því. Hann var að tala um það að hann myndi ekki endurráða í stöður sem losna og einhvers staðar þyrfti að segja einhverjum upp.“
Þetta segir Inga Sæland, alþingismaður og formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is þegar leitað er eftir áliti hennar á aðgerðum í ríkisfjármálum sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra boðaði í dag. Þar voru kynnt áform um niðurskurð og aðhaldsaðgerðir í ríkisrekstri á næsta ári.
„Ég segi alltaf að hverri einustu krónu sem við fáum umfram eigi að forgangsraða í fólkið,“ segir hún.
Inga gagnrýnir harðlega það sem hún kallar vaxtaokur Seðlabankans og segir að bankinn viti vel að hann sé að beygja bognu bökin enn meir og leggja allan klafann á efnaminnsta fólkið í landinu.
„Þeir vita mæta vel að þeir eru að fara að fórna heimilum einhverra fjölskyldna í landinu eins og eftir efnahagshrunið. Fólk mun ekki geta staðið undir margfaldri greiðslubyrði. Þeir vita líka að þeir eru að ýta fólki út í eitraðan kokteil verðtryggingar. Þetta er allt með ráðum gert,“ segir Inga.
Inga beinir spjótum sínum að Seðlabankanum og þeim stýrivaxtahækkunum sem bankinn hefur ráðist í. Segir hún að þær hækkanir muni leiða til þess að snúnara verði að gera kjarasamninga.
„Það er greinileg kjaragliðnun hjá þeim sem stóla algerlega á framfærslu hjá almannatryggingum, þeirra kjaragliðnun heldur áfram og er komin í um 50% frá efnahagshruninu 2008 og kjör þeirra hafa ekki fengið að fylgja eftir launaþróun í landinu.
Við vitum líka hverjir hafa stjórnað meira og minna, það eru Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, með litlum frávikum eins og Samfylkingu og VG eftir hrun. Í þeirra umboði misstu tólf til fimmtán þúsund fjölskyldur heimili sín,“ segir Inga Sæland.
„Það er rosalega óljóst hvað verið er að gera. Hann nefnir uppsagnir fyrir fimm milljarða án þess að nefna hvar og hvernig það yrði útfært, nema að ekki verði ráðið í stöður sem losna þegar fólk hættir vegna aldurs. Það er gott og blessað. En það er óljóst hvaða áhrif þetta hefur,“ segir Björn Leví Gunnarsson, alþingismaður og varaformaður þingflokks Pírata, spurður um boðaðar aðgerðir í ríkisfjármálum.
„Það er talað um að þetta sé ráðstöfun til að hægja á vexti útgjalda. Það er rangt. Útgjaldavöxturinn sem gert er ráð fyrir er útskýranlegum ástæðum, svo sem öldrun þjóðarinnar og byggingu spítala sem á ekki að breyta neinu,“ segir Björn.
„Ef allt væri óbreytt frá árinu í ár og þar til á næsta ári, þá er eini útgjaldavöxturinn vegna þess að það er fleira fólk og eldra fólk sem þarf meiri þjónustu. Það er þessi svokallaði útgjaldavöxtur. Það á ekki að hægja á honum heldur að skera niður í grunninn. Það er verið að skera niður í rekstri ríkisins sem á að segja beint út,“ segir Björn.
„Ég sakna húsnæðismálanna sérstaklega í þessu. Skortur á húsnæði er ákveðinn þrýstingur undir verðbólguna og verður áfram undirliggjandi. Vandinn er ekki farinn. Mér finnst vanta langtíma stefnumörkun í því hvernig fara eigi að því að losna við þann þrýsting og skort á húsnæði.
Einhverra hluta vegna þá fær þetta að velta áfram ár eftir án þess að neitt sé gert. Síðan þarf meiri samhæfingu á milli ríkis og sveitarfélaga um allt land til að koma að íbúðabyggingu allsstaðar. Við þurfum að horfa langt til framtíðar, en það er engin framtíðarsýn eins og er.“