Öll spjót beinast að verðbólgunni

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir fólk vilja geta nálgast …
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir fólk vilja geta nálgast grunnþjónustu alls staðar í samfélaginu á þjóðtungu sinni. mbl.is/Eyþór

Lilja Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, segir brýnt að verkalýðshreyfingin horfi einnig til hækkana á dagvörumarkaði þegar rætt er um verðbólgu. Hún segir öll spjót ríkisstjórnarinnar beinast að verðbólgunni sem sé stærsta hagsmunamál samfélagsins núna.

„Eitt sem vekur sérstaka athygli þá er það hækkun á dagvöru um 12,2 prósent í fyrsta lagi. Í öðru lagi erum að sjá gengishækkun um 6,6 prósent frá áramótum. Ég myndi halda að við þurfum að líta á þær innlendu verðhækkun sem eru umfram þróun verðbólgunnar og kanna hvað það er sem knýr þær áfram,“ segir Lilja sem mun funda með forsvarsmönnum á dagvörumarkaði í byrjun næstu viku. 

„Varðandi ferðaþjónustuna þá er það þannig að við erum að komast á sama stað og árið 2018. Það var metár en við erum ekki komin á þann stað,“ segir Lilja spurð út í gagnrýni forseta ASÍ og formanns VR á ferðaþjónustuna en þeir segja hana vera þensluhvata. 

Lilja segir að vel hafi gengið í ferðaþjónustunni, ferðamenn stoppi lengur á landinu og þannig eykst verðmætasköpunin. 

„Vegna þess hvernig ferðaþjónustan er þá skilar hún inn miklum gjaldeyri. Það styrkir krónuna sem lækkar svo verðbólguna. Í gegnum tíðina hefur meginuppspretta verðbólgu á íslandi verið í gegnum gengislækkun, hraða gengislækkun. Þannig ferðaþjónustan er að skila einhverju þar,“ segir Lilja. 

Ferðaþjónustan að sjálfsögðu þátttakandi í hagkerfinu

Hún bendir á að ríkisstjórnin hafi þegar sett fram áform um að auka gjaldtöku í ferðaþjónustu og að nú fari fram umfangsmikil vinna í hennar ráðuneyti um hvernig það skuli gert. Við þá vinnu sé horft til framtíðar og að auka verðmætasköpun.

„Mín skilaboð inn í verkalýðshreyfinguna eru þau að við erum á fullu að vinna að því að stuðla að því að ferðaþjónustan sé að sjálfsögðu þátttakandi í þessu hagkerfi. Sem hún sannarlega er. Hún skilar gjaldeyristekjum og fjölda starfa,“ segir Lilja og bendir á að í heimsfaraldrinum hafi verið mikil áhersla lögð á að ná ferðaþjónustunni aftur í gang til að sporna við því atvinnuleysi sem jókst í kjölfarið.

„Mér finnst brýnt að verkalýðshreyfingin horfi líka á þessa þætti sem ég nefndi eins og til dæmis hækkanir á dagvörumarkaði. Við erum að beina okkar spjótum þangað því við verðum að uppræta verðbólgu. Það er mikið af fasteignalánum sem eru komin á endurskoðunarákvæði og eru að fara úr lágvaxtaumhverfi yfir í hávaxtaumhverfi. Helsta hagsmunamál íslensks samfélags er að ná verðbólgunni niður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert