Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist hafa væntingar til þess að það takist að snúa fjárlagahalla ríkissjóðs við tveimur árum fyrr en áður hafði verið áformað. Vegna faraldursins varð mikill halli á rekstri ríkisins með tilheyrandi skuldasöfnun, en Bjarni segist nú vænta þess að hægt verði að loka hallanum fyrir lok kjörtímabilsins, eða fyrir lok ársins 2025.
Í vor þegar fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024-2028 var kynnt kom fram að gert væri ráð fyrir hallalausum ríkissjóði árið 2027.
Í samtali við mbl.is eftir kynningarfund um stöðu ríkisfjármála og áforma um aukna hagræðingu í ríkisrekstri sagði Bjarni að þessi bætta staða ríkissjóðs væri til komin vegna þess að aukin umsvif í efnahagskerfinu væru farin að skila sér með sterkum hætti inn í tekjustofnana. Bæði ætti það við um tekjuskatt einstaklinga og með auknum virðisaukaskattstekjum.
Núverandi spá sem Bjarni setti fram gerir nú ráð fyrir um 40 milljarða hallarekstri á þessu ári og að afkoman á næsta ári verði enn betri og svo að hallalausum rekstri verði náð árið 2025. Ítrekar hann jafnframt að tekist hafi að ná 200 milljarða afkomubata fyrir ríkissjóð á tveimur árum, miðað við það sem áður hafði verið spáð.
Hann segir að nánar verði farið ofan í þessar tölur við kynningu á fjárlagafrumvarpinu strax í næsta mánuði og við útgáfu fjármálaáætlunar í vor. „En ég sé fram á það að þetta gefi okkur færi að loka fjárlagahallanum mun fyrr og ég hef væntingar um að við lokum hallanum á þessu kjörtímabili,“ segir Bjarni.