Ríkisstörfum fækkað og ýmis gjöld skorin niður

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Almenn aðhaldskrafa á stofnanir ríkisins á næsta ári verður 2% og 3% á ráðuneytin. Til viðbótar bætist við sérstök aðhaldskrafa þegar kemur að launamálum sem mun leiða til þess að fækkað verður í hópi ríkisstarfsmanna. Ákveðnum verkefnum ráðuneyta verður einnig frestað og skera á verulega niður „óráðstafað útgjaldasvigrúm“ ráðuneytanna.

Þá á að reyna að ná kostnaði niður við rekstur ríkisstofnana, meðal annars með að fækka ferðalögum og draga úr kostnaði við innkaup, en samanlagt á þetta að skila 17 milljörðum á næsta ári í minni útgjöld. Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, en hann segir suma forstöðumenn ríkisstofnana hafa verið ósamvinnuþýða við að taka þátt í því að ná kostnaði við innkaup ríkisstofnana niður.

17 milljarða niðurskurður

Bjarni hélt í dag kynningarfund um stöðu ríkisfjármála og kynnti um leið nokkur niðurskurðar- og aðhaldsáform í ríkisrekstri á næsta ári. Áður hafði hann þó að hluta kynnt einhver þessara mála, m.a. á fundi í mars þegar fjármálaáætlun 2024-2028 var kynnt.

Í kynningunni skipti Bjarni aðhaldsaðgerðunum í þrjá flokka. Lækka á launakostnað um 5 milljarða á næsta ári. Lækkun annarra rekstrargjalda stofnana á að nema 4 milljörðum og aðhald hjá ráðuneytum nemur 8 milljörðum. Samtals nemur þetta 17 milljörðum í niðurskurð.

Gerir ráð fyrir fækkun starfa

Bjarni segir að almenn 2% aðhaldskrafa sé sett á stofnanir ríkisins og 3% á ráðuneytin. Í mars sagði hann hagræðingarkröfuna ekki eiga við um löggæslu, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Spurður hvort það standi enn segir hann svo vera og því nái aðhaldskrafan ekki til þeirra stofnana. Hins vegar verður sett „sérstök aðhaldskrafa á launaliðinn“ að sögn Bjarna, en þar verða framlínustarfsmenn undanþegnir. Nefnir hann sérstaklega í því sambandi t.d. starfsfólk í heilbrigðisþjónustu, framhaldsskólum og löggæslu.

Í einni af glærum Bjarna má sjá hvernig skera á …
Í einni af glærum Bjarna má sjá hvernig skera á niður kostnað í ríkisfjármálunum. Skjáskot/Stjórnarráðið

Spurður nánar út í þessa aðgerð og hvernig eigi að ná henni fram segir Bjarni að þessum sparnaði verði að einhverju leyti náð í gegnum starfsmannaveltu. „En líka með fækkun starfa,“ bætir hann við. Segir hann að í einhverjum tilfellum verði hægt að ná sparnaði í gegnum hagræðingu með sameiningu stofnana, en að „í öðrum tilfellum geta forstöðumenn þurft að finna leiðir til að fækka stöðugildum og þannig gerir ríkiskerfið okkur kleift að forgangsraða þeim fjármunum sem eru til skiptanna í þau verkefni sem ríkisstjórnin vill leggja mesta áherslu á.“ Segist Bjarni hafa fundað með ríkisforstjórum í gær og kynnt þeim þessi áform.

Ríkisforstjórar verið ósamvinnuþýðir

Varðandi lækkun annarra rekstrargjalda stofnana lagði Bjarni áherslu á að lækka ætti ferðakostnað og ná fram hagkvæmari innkaupum fyrir ríkið. Seinna atriðið er reyndar eitthvað sem Bjarna hefur verið tíðrætt um undanfarin ár og segir hann núna að unnið hafi verið mikið starf innan Ríkiskaupa til að ná þessu fram. Auk þess hafi þegar náðst árangur hjá ákveðnum stofnunum. „En fyrir minn smekk hefði það mátt ganga hraðar,“ segir Bjarni.

Aðal vandamálið að hans mati hafi verið skortur á gögnum fyrir Ríkiskaup, en að það hafi nú verið leyst með því að opna aðgang fyrir stofnunina í bókhaldsgögn úr ríkisbókhaldinu. Með því segir Bjarni að hægt verði að bera saman hvernig innkaup eru stunduð hjá ólíkum stofnunum.

Spurður út í viðhorft ríkisforstjóra til þess að taka þátt í frekari hópkaupum og hvort rétt sé að óánægju hafi gætt meðal hóps ríkisforstjóra sem ekki hafi viljað taka þátt í þessum aðgerðum segir Bjarni svo vera. „Ég þekki dæmi um þetta enn þá. Að einstaka ríkisstofnanir telji engan ávinning að fara inn í rammasamninga. Til skamms tíma var það galli við rammasamninga að þeir voru alveg óháðir magni. En það er fyrst þegar við förum að nota magnið til að knýja á um betra verð sem ríkið sér alvöru ávinning,“ segir Bjarni.

Skera á niður pott fyrir áhersluverkefni ríkisstjórnar

Stærsti liðurinn í þessari samantekt Bjarna var 8 milljarða sparnaður ráðuneyta. Hluti þess hefur áður verið kynntur, meðal annars frestur stærri verkefna og nefnir Bjarni meðal annars nýja samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila, sem og vegaframkvæmdir. En eitt er þó nýtt og tengist auka sjóðum sem ráðuneytin hafa átt aðgang að fyrir áherslumál ráðherra og ríkisstjórnarinnar.

„Við erum að gera viðbótaraðhald á ráðuneytin og svo voru ráðuneytin með óráðstafað útgjaldasvigrúm. Við gerðum ráð fyrir því í langtímaáætlunum okkar að ráðuneytin gætu verið með eins konar pott sem við myndum þegar fjárlagaárið myndi renna upp við myndum ákveða hvernig yrði nýttur. Eins og nýir peningar sem ráðherrar geta fengið til að koma áherslumálum sínum í framkvæmd. Við erum að skera þetta verulega niður,“ segir Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert