Stjórn Eflingar fordæmir „öfgafullar hækkanir Seðlabanka Íslands á stýrivöxtum, sem eru langt umfram það sem gert hefur verið í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þessar hækkanir vaxtakostnaðar bitna langmest á heimilum lágtekjufólks, einstæðra foreldra, yngra fólks á húsnæðismarkaði og innflytjendum.“
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu.
Þar segir enn fremur, að rök bankans fyrir þessum aðgerðum haldi engu vatni.
„Það er ekki tekjulægri helmingur þjóðarinnar sem er ábyrgur fyrir eftirspurnarþenslu með of mikilli neyslu, heldur tekjuhærri helmingurinn og svo ofvöxtur ferðaþjónustunnar. Þeir tekjuhærri finna hins vegar lítið fyrir vaxtahækkunum. Byrðum er þannig útdeilt á bæði ósanngjarnan og óskynsamlegan hátt og árangurinn er eftir því.
Húsnæðiskostnaður lágtekjufólks hefur rokið upp og framleiðsla ódýrs íbúðarhúsnæðis hefur dregist saman, sem magnar húsnæðiskreppuna enn frekar en orðið er,“ segir Efling.
Þá segir Efling að það sé ljóst að þessar aðgerðir Seðlabankans muni gera kjarasamninga á komandi vetri mun erfiðari en ella hefði verið.